Samkeppniseftirlitið andmælir samruna Haga og Olís í skjali sem eftirlitið sendi á Olís á þeim forsendum að samruninn raski samkeppni og verði ekki samþykktur án skilyrða.
Hagar tilkynntu í apríl á síðasta ári um undirritun kaupsamnings um kaup á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélagsins DGV ehf. Kaupsamningarnir voru undirritaðir með fyrirvara meðal annars um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Í tilkynningu frá Högum kemur fram að bréf Samkeppniseftirlitsins feli í sér frummat en ekki binandi stjórnvaldsákvörðun. Skjalið sé ritað í þeim tilgangi að auðvelda samrunaaðilum að nýta andmælarétt sinn samkvæmt stjórnsýslulögum og stuðla að því að rétt ákvörðun verði tekin í málinu.
Stjórn Haga hefur samþykkt að ganga til sáttaviðræðna við Samkeppniseftirlitið til úrlausnar þeim þáttum sem taldir eru raska samkeppni og koma fram í frummati Samkeppniseftirlitsins.
Allar ályktanir í andmælaskjalinu geta tekið breytingum gefi ný gögn eða sjónarmið tilefni til þess. Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við andmælaskjalið á framfæri en auk þess eru að hefjast sáttaviðræður um málið í von um að hægt sé að leysa þau samkeppnislegu vandamál sem um ræðir.