Nemendur sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands ætla ekki að greiða skólagjöld vorannar 2018. Í tilkynningu frá nemendunum kemur fram að slæm aðstaða deildarinnar og síversnandi þjónusta við nemendur hennar komi í veg fyrir að þau geti stundað nám í listgreinum sínum eins og lagt var upp með þegar skólaganga þeirra við Listaháskóla Íslands hófst.
„Við teljum okkur hafa verið svikin um þá þjónustu og aðstöðu til náms sem okkur var lofað. Þessi aðgerð er því ekki aðeins gerð í mótmælaskyni til að hreyfa við stjórn og stjórnendum skólans, heldur á grundvelli þess að algjör forsendubrestur hafi orðið í viðskiptasambandi okkar við skólann,“ segir í tilkynningunni.
Þau segjast árum saman hafa kvartað yfir slæmum aðbúnaði og þjónustu við sig án þess að komið hafi verið til móts við þau með fullnægjandi hætti. Þvert á móti hafa aðstæður nemenda deildarinnar versnað samhliða því að skólagjöld hækka með hverju ári sem líður.
„Þolinmæði okkar er á þrotum. Okkur er því sá einn kostur fær að halda eftir skólagjöldum þessarar annar enda um alvarlegan forsendubrest að ræða af hálfu skólans.“
Þau hyggjast auk þess ganga út úr skólanum eftir hádegi á afhendingardegi bréfsins, í dag, og mæta ekki í skólann eftir hádegi í mótmælaskyni. Biðja þau stjórn skólans að taka afstöðu til kröfunnar og birta rökstudda ákvörðun sína fyrir mánudaginn 5. febrúar.
Í forsendubrestinum felst meðal annars að húsnæði Listaháskólans við Sölvhólsgötu 13 henti hvorki til reksturs háskóla né iðkunar sviðslista. Þar sé ekki aðgengi fyrir fatlaða sem er brot á lögum, húsnæðið sé sýkt af myglu sem og í niðurníðslu. Svo dæmi sé tekið sé það daglegt brauð að leki úr skólprörum og úr lofti í rýmum skólans. Engin les- eða vinnuaðstaða sé til staðar, ekkert mötuneyti né bókasafn og önnur rými sem nemendur hafa til notkunar í listsköpun sinni henta ekki við iðkun sviðslista. Sem dæmi um þetta er að dansstúdíó skólans er óeinangraður skúr.
Nemendurnir kvarta einnig yfir því að utanaðkomandi aðilar fái ítrekað aðgang að rýmum sem þau eigi að hafa til umráða og greiði fyrir með skólagjöldum sínum. Þá sé aðeins einn tæknimaður við störf sem þjónustar tæplega 50 nemendur deildarinnar sem eru allir að vinna að sýningum á sama tíma, auk annarra umkvörtunarefna.
Hægt er að lesa bréfið í heild sinni hér.
Þau segja sig hafa verið svikin um bæði þjónustu og aðstöðu til náms sem þeim var lofað. Öll hafi þau ástríðu fyrir námi sínu og vilji gera allt til að stunda það af metnaði, en óviðunandi aðstæður geri þeim það nær ómögulegt. „Listaháskólinn er eini skólinn á Íslandi sem kennir sviðslistir á háskólastigi og hafa metnaðarfullir nemendur því neyðst til að stætta sig við aðstæðurnar allt of lengi.“
Nemendurnir segjast inna af hendi greiðslu skólagjalda gegn því að háskólastofnunin uppfylli skilyrði til náms samkvæmt 3. grein laga um háskóla. Núverandi ástandi verði ekki lýst með þeim hætti að LHÍ hafi staðið við skuldbindingu samkvæmt slíkum samningi samkvæmt lögunum.
Undir tilkynninguna rita allir nemendur sviðslistadeildar, auk þess sem nemendur annarra deilda skólans leggja stuðning sinn við bréfið.