„Örvæntingin leynir sér ekki hjá Sigurði Bessasyni fráfarandi formanni Eflingar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í stöðuuppfærslu á Facebook.
Hann segir Sigurð gefa í skyn að mótframbjóðandi uppstillingarnefndar til formanns Eflingar sé ekkert annað en viljalaust verkfæri einhverra karla út í bæ. Þannig taki hann ekki aðeins afstöðu gegn sínum eigin félögum, sem hafa lýðræðislegan rétt á að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa fyrir félagið, heldur sýni hann frambjóðandanum, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fádæma kvenfyrirlitningu.
Sigurður segir í samtali við Morgunblaðið í dag að óvanalegt sé að utanaðkomandi pólitískt afl kalli eftir því að boðið sé fram í stéttarfélagi sem og að formaður í stéttarfélagi blandi sér með beinum hætti inn í stéttabaráttu í öðrum stéttarfélögum. Vísar hann þar til stuðnings Ragnars á framboði Sólveigar og störfum hennar fyrir Sósíalistaflokk Íslands, sem er undir forystu Gunnars Smára Egilssonar. Í Morgunblaðinu segir Sigurður að ljóst sé að með framboði hennar sé Sósíalistaflokkurinn kominn fram með sinn frambjóðanda til forystu stéttarfélagsins og hefur efasemdir um blöndu verkalýðsbaráttu og flokkspólitíkur.
Ragnar segir að þessari „karlrembu risaeðlu“ hefði verið nær að mæta á opinn fund um Vor í verkó, þar sem frambjóðendur kynntu sig og sínar áherslur, til að skilja út á hvað framboðið gengur og kannski hlusta á grasrótina svona einu sinni.
„Sólveig Anna Jónsdóttir frambjóðandi til formanns Eflingar er að boða nýja og róttæka tíma tíma í verkalýðsbaráttu hún er örugglega herskárri og róttækari heldur en ég verð nokkurn tíma og þarf enga hjálp við það sem hún og hennar listi er að gera. Sigurði Bessasyni er frjálst að gera lítið úr Sólveigu og hennar fólki og mér er frjálst að hafa skoðanir á því hvort ég styðji grasrót allra stéttarfélaga til góðra verka eða ekki,“ segir Ragnar.
Hann segir það eins og að skjóta tívolíbombum úr gróðurhúsi þegar Gylfi Arnbjörnsson formaður ASÍ eða Sigurður reyni að tengja framboðinu einhverjum pólitískum öflum með neikvæðum hætti og sýni best þá örvæntingu sem gripið hefur um sig meðal þeirra. Margir spenar séu í verkalýðshreyfingunni og margir sem sjúgi fast. En það sé líka mikill mannauður í hreyfingunni, starfsfólk stéttarfélaga sem fái ekki að blómstra vegna gjaldþrota hugmyndafræði örfárra.
„Það er þekkt pólitísk aðferðarfræði að rétta kyndilinn áfram til þeirra sem ekki eru líklegir til að rugga bátnum eða fara gegn hugmyndafræði þeirra sem rétta hann áfram. Fyrir þá sem þrífast í vellystingum eins og hrossaflugur í mykjuhaug eigin hugmynda um velferð og lífsgæði í skjóli láglaunastefnu, okurvaxta, trausts og reynslu, þurfa nú loks að svara sínum eigin félagsmönnum sem ekki hafa aðgang að lokuðum fundum elítunnar sem handvelur vandlega fundarmenn.“
Ragnar segist að lokum mæta reglulega á fundi allra stjórnmálaflokka. Hann tali við grasrótina, heimsæki fyrirtækin og haldi reglulega fundi með sínu baklandi. Hann hafi hlustað á frambjóðendur til stjórnar Eflingar og frambærilegri hóp af fólki hafi hann ekki séð lengi. Hver ræðan á fætur annarri veitti honum slíkan innblástur að hann fékk gæsahúð.
„Það eru meiri líkur á að Sólveig Anna leiði næstu byltingu stéttanna en ég. Ég vona það allavega því þarna fer mikið forystu efni sem þarf enga hjálp frá einum eða neinum, allra síst gömlum risaeðlum sem hreiðrað hafa um sig innan hreyfingarinnar og byggt í kringum sig múra frá sauðsvartri Alþýðunni.“