Garðabær leggur hæstu skóladagvistunargjöldin á íbúa sína samkvæmt mælingu Verðlagseftirlits ASÍ. Mikill munur er á kostnaði við skóladagsvistun og skólamáltíðir hjá sveitarfélögunum en hæst eru þau, með hádegismat og hressingu hjá Garðabæ eða 37.114 krónur en lægst hjá Vestmannaeyjum eða 24.360 krónur. Munurinn nemur 12.754 krónum á mánuði sem gera 127.540 krónur á ári miðað við 10 mánaða vistun og er þetta 52 prósenta verðmunur.
Seltjarnarnes er með önnur hæstu gjöldin eða 36.297 krónur og Akureyri með þriðju hæstu gjöldin, 35.721 krónur. Næst lægstu gjöldin eru hjá Reykjanesbæ, 24.565 krónur á mánuði, aðeins 205 krónum hærra en hjá Vestmannaeyjum. Reykjavík kemur síðan á eftir með þriðju lægstu gjöldin 27.279 krónur á mánuði.
Heildarkostnaður fyrir skóladagvist og hádegismat hækkar hjá 12 sveitarfélögum af 15 en mesta hækkunin er í Kópavogi upp á 4,6 prósent, 4,5 prósent í Reykjavík og 4,3 prósent á Akranesi. Minnsta hækkunin er á Ísafirði eða 1,2 prósent og 1,3 prósent í Mosfellsbæ en Vestmannaeyjabær, Reykjanesbær og Hafnafjarðarkaupstaður hækka gjöldin ekkert milli ára.
Hádegismatur hækkar í 11 af 15 sveitarfélögum frá síðasta ári en mesta hækkunin er hjá Reykjavíkurborg þar sem hádegismatur hækkar um 8 prósentum úr 441 krónum í 476 krónur. Næstmesta hækkunin á mat er í Mosfellsbæ eða um 5 prósent. Engar verðhækkanir eru á hádegismat í Vestmannaeyjum, Garðabæ og á Reykjanesi. Eftir stendur að hádegismaturinn er dýrastur á Ísafirði á 505 krónur máltíðin. Þar á eftir kemur Reykjavík með 476 krónur fyrir máltíðina og Garðabær með 474 krónur fyrir máltíðina. Ódýrastur er hádegismaturinn í Sveitarfélaginu Árborg en þar kostar máltíðin 359 krónur og Akranes er með næst ódýrasta hádegismatinn en þar kostar máltíðin 369 krónur.
Systkinaafslættir er eitt af því sem getur skipt miklu máli fyrir fjölskyldur með fleiri en eitt barn enda getur kostnaður heimilisins við frístund og mat í skóla verið ansi hár. Systkinaafslættir sveitarfélaganna fyrir fólk með fleiri en 1 barn eru þó afar misjafnir. Reykjavík er með hæstu afslættina í heildina litið eða 75 prósenta afslátt fyrir annað barn og 100 prósenta afslátt fyrir þriðja barn en Fjarðarbyggð er með lægstu afslættina eða 25 prósent fyrir annað barn og 50 prósent fyrir þriðja barn. Í Kópavogi færðu 30 prósenta afslátt fyrir annað barn og sama gildir fyrir Ísafjörð. Flest sveitarfélögin eða tíu af fimmtán sveitarfélögum bjóða upp á 50 prósenta afslátt fyrir annað barn og átta af fimmtán bjóða upp á 75 prósenta afslátt fyrir annað barn. Reykjavík, Akureyri, Seltjarnarnes, Vestmannaeyjar, Sveitarfélagið Skagafjörður og Ísafjarðarbær eru allt sveitarfélög með 100 prósenta afslætti af gjöldum fyrir þriðja barn.
Lesa má nánar um mælingu ASÍ hér.