Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir að upplýsingar um ráðleggingar sérfræðinga til Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um Landsréttarmálið setji ákvörðun flokks hans um stuðning við málið í nýtt ljós. Hann segir að flokkurinn hefði stutt að málið fengi lengri umfjöllun í þinginu ef kosið væri um það í dag. „Ég gengst við því að ég studdi ákvörðun ráðherrans þannig að það eru mér sjálfum sérstaklega mikil vonbrigði að komast að því að allir helstu sérfræðingar stjórnkerfisins hafi ráðlagt ráðherranum að fara aðra leið. Hún kaus að gera okkur enga grein fyrir því,“ segir Jón Steindór í samtali við Kjarnann.
Á lokametrum vorþings áttu sér stað átök um skipun 15 nýrra dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra hafði þá vikið frá hæfnismati dómnefndar og tilnefnt fjóra dómara sem nefndin hafði ekki talið hæfasta, en fjarlægt aðra fjóra af listanum. Málið varð síðustu ríkisstjórn, sem í sátu Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð mjög erfitt og er þegar farið að þvælast fyrir þeirri nýju, sérstaklega eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í desember að ráðherrann hefði brotið lög.
Í morgun var tekist á um málið á Alþingi. Á meðal þeirra sem stigu í pontu og gagnrýndu Sigríði Á. Andersen voru þrír þingmenn Viðreisnar, þau Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson. Þau studdu öll tillögu dómsmálaráðherra og kusu með henni þegar atkvæði voru greidd á Alþingi 1. júní 2017. Tillaga Sigríðar um skipun dómara við Landsrétt var á endanum samþykkt með 31 atkvæði þáverandi stjórnarþingmanna. Brynjar Níelsson var eini stjórnarþingmaðurinn sem greiddi ekki atkvæði þar sem eiginkona hans var á meðal þeirra sem skipaðir voru í Landsrétt.
Sérfræðingar vöruðu við
Stundin birtir í síðustu viku gögn sem sýndu að sérfræðingar þriggja ráðuneyta vöruðu Sigríði Á. Andersen ítrekað við því að breytingar á lista dómnefndar um Landsréttardómara gætu verið brot gegn stjórnsýslulögum.
Gögnin, sem eru m.a. tölvupóstar og drög af því bréfi sem dómsmálaráðherra sendi Alþingi þegar hún ákvað að víkja frá mati dómnefndar við tilnefningu á 15 dómurum við Landsrétt.
Í tölvupósti frá Ragnhildi Arnljótsdóttur, settum ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins í Landsréttarmálinu, sem sendur var á Sigríði daginn áður en ráðherra tilkynnti um ákvörðun sína um að gera breytingar á niðurstöðu hæfisnefndar um skipun á dómurum í Landsrétt, kom fram að ráðuneytisstjórinn taldi skorta á rökstuðning ráðherrans. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV á þriðjudag.
Málið var síðan til frekari umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveiki. Þar sagðist Sigríður hafa borið ábyrgð á málinu með því að fara með það í gegnum kosningar þar sem hún náði endurkjöri.
Hefðu hugsað sinn gang
Jón Steindór segir að þingmenn Viðreisnar, sem nú eru í stjórnarandstöðu, séu vægast sagt undrandi yfir tíðindum síðustu daga og að þeir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með að ráðherrann hafi haft að engu viðvaranir sérfræðinga.
Þá séu það líka vonbrigði að hún hafi kosið að segja ekki þinginu, né þeim flokkum sem voru með Sjálfstæðisflokknum í stjórnarsamstarfi þegar ákvörðunin var tekin, frá viðvörunum sérfræðinganna. „Ég gengst við því að ég studdi ákvörðun ráðherrans þannig að það eru mér sjálfum sérstaklega mikil vonbrigði að komast að því að allir helstu sérfræðingar stjórnkerfisins hafi ráðlagt ráðherranum að fara aðra leið. Hún kaus að gera okkur enga grein fyrir því.“
Aðspurður hvort að þingmenn Viðreisnar hefðu stutt málið ef þeir hefðu haft þær upplýsingar sem nú liggja fyrir þá segir Jón Steindór skýrt að þær setji málið í annað samhengi. „Ég held að við hefðum hugsað okkar gang. Það er alltaf erfitt að segja hvað maður hefði gert, en við hefðum örugglega stutt að málið myndi fá lengri umfjöllun í þinginu. Þetta setur þessa ákvörðun og stuðning við málið í nýtt ljós.“