Hlutabréfaverð hrundi á alþjóðamörkuðum í dag og segir í Wall Street Journal, að fjárfestar horfi til þess að hækkandi vaxtastig og verðbólga, hafi verið ein ástæða þess að vísitölur féllu nær alls staðar.
Í Bandaríkjunum féll Dow Jones vísitalan um 2,5 prósent og í bæði Evrópu og Asíu lækkuðu vísitölur á bilinu 1 til 2,5 prósent.
Lækkunin kom hins vegar ekki úr lausu lofti, þar sem töluverð umræða hefur verið um í fjölmiðlum í Bandaríkjunum að undanförnu, að hlutabréfaverð sé sögulega hátt, og líklegt sé að einhvers konar leiðrétting geti komið fram á markaðnum til lengdar.
Þannig lét yfirmaður hjá Goldman Sachs hafa eftir sér á dögunum, að töluverðar líkur væru á því að verð myndi lækka skarpt á næstunni. Sagði hann markaðinn hafa mörg einkenni þess að helstu verðkennitölur væru „bólgnar“ og ekki ólíklegt að töluverð lækkun kæmi fram á næstunni.
Sagði hann meðal annars að sagan sýndi, að verð gæti lækkað um 13 prósent að meðaltali yfir fjögurra mánaða tímabil, í dæmigerðri leiðréttingu á markaði þar sem verð væru orðin of há. Byggði hann þetta á sögulegum gögnum frá Goldman Sachs.