Fólki fjölgar meira á Norðurlöndunum en annars staðar í Evrópu. Helsta ástæða fólksfjölgunarinnar er aðflutningur fólks frá löndum utan Norðurlanda. Frá árinu 2000 hafa 4,3 milljónir fólks flust til Norðurlandanna á sama tíma og 2,5 milljónir hafa fluttst á brott. Aðfluttir umfram brottflutta eru því 1,8 milljónir manna.
Þetta er meðal niðurstaðna sem greint er frá í State of the Nordic Region 2018, nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni. Í skýrslunni eru bornar saman upplýsingar frá 74 svæðum Norðurlandanna í máli og aðgengilegum kortum. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Nordregio.
Fólk flytur til Norðurlandanna af ýmsum ástæðum svo sem vegna vinnu og náms, segir í tilkynningunni. Einnig er greint frá því að af fólki á flótta hafi hlutfallslega flestir leitað til Svíþjóðar þar sem hælisleitendur voru 16,7 á hverja 1000 íbúa árið 2015, þegar straumur flóttafólks var sem mestur. Samsvarandi tala fyrir Noreg er 6,0 og Finnland fylgir á eftir með 5,9. Á síðustu 20 árum hafi þeim sem fæddir eru utan Norðurlandanna fjölgað úr 6,5 prósent árið 1995 í 14,3 prósent tuttugu árum síðar.
Að Grænlandi undanskildu hefur fólki fjölgað á öllum Norðurlöndunum undanfarin tíu ár og hefur heildar mannfjöldinn farið úr 25 milljónum í 27 milljónir. Hlutfallslega var fjölgunin mest í Noregi eða 12,3 prósent en næstmest á Íslandi þar sem hún var 10 prósent. Í fjölmennasta norræna ríkinu, Svíþjóð hefur íbúum fjölgað um 9,7 prósent. Frá 2007 til 2017 var fjölgun á svæðinu öllu 8,1 prósent og má búast við að árið 2030 verði íbúarnir orðnir 30 milljónir.
Norðurlandabúar að eldast
Þróunina má jafnframt rekja til fjölgunar í árgöngum eldra fólks sem eru hlutfallslega fjölmennari á Norðurlöndunum en að meðaltali í Evrópu. Fjölgunin er mest á þéttbýlisstöðum, bæði vegna flutnings ungs fólks til borganna og vegna aðflutnings fólks frá öðrum löndum.
Almennt eru Norðurlandabúar að eldast. Samkvæmt skýrslunni er ástæðan fyrst og fremst afar stórir árgangar fólks á aldrinum 65 til 79 ára þar sem hlutfallslega fleiri lifa lengur en áður. Framreikningur sýnir að fólki mun halda áfram að fjölga fram til 2030 en þó örlítið hægar en verið hefur.
Á stórum svæðum í Finnlandi má búast við að helmingur fullorðinna íbúa verði eldri en 65 ára árið 2030. Aðeins á örfáum svæðum eins og í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Osló og Reykjavík hefur skiptingin milli fólks á vinnufærum aldri og fólks á eftirlaunaaldri annað hvort lagast eða eða skekkst minna en annars staðar.
Borgir stækka
Á öllum Norðurlöndunum stækka borgirnar. Sé litið til þróunar fram til 2030 er búist við því að fólksfjölgun á svæðunum í kringum Kaupmannahöfn/Malmö, Stokkhólm, Ósló og Helsinki verði meira en 10 prósent. Nú er staðan sú að um 20 prósent alls fólks á Norðurlöndunum býr í höfuðborgunum og nágrenni þeirra.
Borgirnar stækka ekki síst vegna þess að unga fólkið flytur þangað til náms eða starfa, auk þess sem stór hluti þeirra sem flytja til Norðurlandanna sest að í borgum, segir í skýrslunni. Þetta hefur í för með sér að þrátt fyrir að íbúarnir eldist almennt séð, þá er þróunin mun hægari í stærstu borgum Norðurlandanna.
Skýrslan er unnin af Nordregio, fræðastofnun ráðherranefndarinnar í skipulags- og byggðamálum, sem hefur gefið út sambærilegar skýrslur í mörg ár. Auk kafla um lýðfræði, efnahagsmál og vinnumarkað eru kaflar um um stafræna tækniþróun, lífhagkerfi, heilsufar og menningu.
Hægt er að fræðast frekar um skýrsluna á norden.org.