Siðfræðistofnun Háskóla Íslands stendur höllum fæti fjárhagslega og er með skuldahala á bakinu. Þetta kom fram í máli Vilhjálms Árnasonar stjórnarformanni á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn var í lok janúar.
Þar kom meðal annars fram að stofnunin hafi ekki lengur bolmagn til að hafa launaðan starfsmann. Mótframlag til stofnunarinnar vegna rannsóknarstyrkja hefur dregist saman auk þess sem heimanmundur frá Háskólaráði sem stofnunin hefur fengið er útrunninn. Ljóst er að gert er ráð fyrir aðkomu stofnunarinnar víða í samfélaginu á vegum stjórnvalda og annarra án þess að hún sé styrkt sérstaklega, auk þess sem hún hefur að eigin frumkvæði beitt sér fyrir málum, sem annars staðar en á Íslandi væru á könnu launaðra landsiðaráða á vegum stjórnvalda, án þess að hafa til þess pólitískt umboð.
Tilefnum til aðkomu stofnunarinnar fer fjölgandi
Í samtali við Kjarnann segir Vilhjálmur að meðfram upplýsinga- og tæknibreytingum og framförum í samfélaginu munu tilefnin til aðkomu Siðfræðistofnunar aukast sem og þörfin fyrir siðfræðilega greiningu og röksemdir. „Við auðvitað reynum bara að sinna því eins og við ráðum við. Við erum náttúrulega bara örfá hérna en vantar þennan fjárhagslega bakhjarl sem myndi gera okkur kleift að sinna þessum verkefnum skipulega,“ segir Vilhjálmur. Undanfarið hafa mörg álitaefni komið upp sem stofnunin hefur þurft að takast á við. Hér mætti nefna fjölmörg álitaefni á sviði lífsiðfræði sem hafa verið til umræðu og nauðsynlegt er að meta frá siðferðilegu sjónarhorni, sem sagt forgangsröðun í heilbrigðismálum, viðbrögð við mistökum í vísindarannsóknum (eins og plastbarkamálið), mótun stefnu um ákvarðanir við lífslok og líknardráp, beitingu nýrrar tækni við genalækningar (Crispr), staðgöngumæðrun og líffæraflutninga. Einnig er brýnt að fjalla skipulega um siðferðileg álitaefni á sviði umhverfismála og viðskiptalífs, móttöku flóttamanna, notkun nýrrar tækni og önnur álitaefni sem varða ákvarðanir stjórnvalda. „Svona mál kalla á fræðilega greiningu og vandaða umræðu,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir aldrei hafa komið til greina að leita fjárveitingar utan ríkisins. „Við höfum alltaf litið svo á að Siðfræðistofnun þyrfti að gæta sín á að fá ekki fjármagn utan úr samfélaginu vegna þess að við getum alltaf þurft að taka upp mál sem snerta þessa sterku hagsmunaaðila sem kæmu kannski helst til greina að styrkja svona. Við höfum ekki viljað gera það. En það er því þeim mun mikilvægara að einmitt svona stofnun, til þess að hún geti í krafti akademísks frelsis tekið á málum af myndugleik, geti staðið í akademísku skjóli og það gerir hún ekki nema að hafa fjárhagslegan styrk.
Salvör Nordal var forstöðumaður stofnunarinnar en lét af störfum þann 1. ágúst á síðasta ári án þess að nokkur hafi verið ráðinn í hennar stað og ekki er útlit fyrir að svo verði. Siðfræðistofnun heyrir undir Hugvísindastofnun Háskólans og fær rekstrarfé frá sviðinu.
Viðamikið hlutverk stofnunarinnar
Hlutverk Siðfræðistofnunar er viðamikið. Í reglum um hana kemur fram að hlutverkið sé meðal annars að efla og samhæfa rannsóknir í siðfræði við Háskóla Íslands, að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda háskóla og aðra rannsóknaraðila á sviði siðfræði, að gefa út fræðirit, námsefni og kynna niðurstöður rannsókna í siðfræði, að veita upplýsingar og ráðgjöf um siðfræðileg efni og að gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum um siðfræði. „Eitt meginhlutverk Siðfræðistofnunar hefur verið að efla upplýsta umræðu um siðfræðileg álitamál og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um löggjöf á þessu sviði. Allt frá stofnun Siðfræðistofnunar við Háskóla Íslands 1989 hefur hún unnið að rannsóknum á sviði siðfræði og byggt upp sérfræðikunnáttu á þessu sviði. Einnig hefur stofnunin stuðlað að opinberri umræðu um þessi mál, stundum verið stjórnvöldum til ráðgjafar um siðferðileg álitamál og unnið fjölmargar álitsgerðir um lög, þingsályktunartillögur og reglugerðir. Siðfræðistofnun er þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi við stofnanir og fræðimenn á þessu sviði og fylgist þannig með faglegri umræðu á hverjum tíma,“ segir Vilhjálmur.
Þá eru boðið upp á námsbraut í heimspeki um meistaranám í hagnýtri siðfræði, þar sem hægt er að velja milli þriggja kjörsviða; heilbrigðis- og lífsiðfræði, umhverfis- og náttúrusiðfræði eða viðskiptasiðfræði. Auk þess er boðið upp á diplómanám í gagnrýninni hugsun og siðfræði sem og doktorsnám í hagnýtri siðfræði. Að auki hefur háskólinn sett sér stefnu um að öll fræðasvið og deildir setji sér markmið og skilgreini leiðir til að flétta saman siðfræði og faglegt nám, efla siðfræðilega dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun en sérfræðingur stofnunarinnar var ráðinn til að sinna því verkefni.
Stofnunin kemur með einum eða öðrum hætti að gríðarlegum fjölda rannsóknarverkefna, meðal annars á sviði líftækni, viðskiptasiðfræði og netöryggi. Auk þess sem stjórnarmeðlimir sitja í hinum ýmsu stjórnum, nefndum og ráðum á vegum hins opinbera, til dæmis Vísindasiðanefnd siðanefnd RÚV, Siðareglunefnd Alþingis, Siðanefndum bæði Prestafélagsins og Blaðamannafélagsins, Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur og Erfðafræðinefnd svo fátt eitt sé nefnt.
Fjölbreytt störf en mest ógreitt
Siðfræðistofnun er að auki gert að veita umsagnir um lagafrumvörp þegar það á við, taka þátt í starfshópum sem undirbúa frumvörp, veita ráðgjöf um setningu og innleiðingu siðareglna hjá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum, halda fræðsluerindi og námskeið fyrir ýmsar stofnanir og faghópa og sinna margvíslegum hlutverkum sem landsiðaráð gera í öðrum löndum. Allt þetta er ólaunað að sögn Vilhjálms en áhugi er fyrir hendi innan stofnunarinnar að sinna þessu verkefni af meiri alvöru og vinna markvissar að umsögnum fyrir stjórnvöld og skrifa ítarlegri álit en hingað til hefur verið unnt að gera. „Einnig myndi ráðið efna til umræðu meðal borgaranna um þessu mikilvægu mál. Allt ætti þetta að styrkja faglega umfjöllun þingsins um siðferðileg álitaefni og gæti stuðlað að vandaðri stefnumótun á mörgum sviðum þar sem siðfræðilegar spurningar verða æ álitnari í flóknum heimi samtímans.“
Vilhjálmur segir að stofnunin passi í rauninni ekki almennilega inn í fjármögnunarkerfi háskólans. „Öll fjármögnun er reiknuð út frá rannsóknum og kennslu. Siðfræðistofnun, og stofnanir almennt, sinna ekki kennslu og á vegum stofnanarinnar eru ekki það miklar rannsóknir að það geti staðið undir starfsmanni. Það sem við sinnum eru í raun þjónustuverkefni, sem við höfum verið til dæmis að sinna fyrir stjórnvöld og það er gert ráð fyrir okkur í ýmsum verkefnum en þar hefur ekki verið um neinar þóknanir að ræða né vilji til þess af hálfu stjórnvalda,“ segir Vilhjálmur og bætir við að ekki hafi verið brugðist við óskum þeirra um fjármögnun, til dæmis að gerður verði einhvers konar samningur við Siðfræðistofnun til þess að hægt sé að sjá skipulega um verkefnin, til að mynda við stefnumótun og undirbúning löggjafar.
Vantar Landsiðaráð?
Víða um lönd eru starfandi siðaráð sem eru stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á þessu sviði til undirbúa vandaða lagasetningu og stuðla að almennri umræðu um þessi mál. Um árabil var starfrækt á vegum Landlæknisembættisins Siðaráð Landlæknis sem var embættinu til ráðgjafar um siðferðileg álitamál á þessu sviði. Siðaráðið var lagt niður árið 2000 og kom þá fram sú hugmynd að setja á stofn Landsiðaráð sem hefði breiðari starfsvettvang en það sem kennt var við Landlækni. Vilhjálmur segir að horfið hafi verið frá þeirri hugmynd vegna þess að ekki þótti vera pólitískur jarðvegur fyrir slíka hugmynd á þeim tíma. Á Norðurlöndum hafa slík siðaráð hafa starfað um árabil. Þekktast þeirra er Etisk råd í Danmörku sem hefur gefið út vandaðar skýrslur um fjölmörg siðferðileg álitamál á síðustu árum. Einnig má nefna Bioteknologinemnda í Noregi. Auk þess að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um siðfræðileg álitamál standa þessar stofnanir fyrir umræðufundum, oft í tengslum við þjóðþingin, og útgáfu, þar á meðal kennsluefni fyrir grunnskóla um siðferðileg efni í samtímanum.
Vilhjálmur segist þó finna fyrir velvilja innan háskólans til breytinga og segist jafnvel ekki útiloka að afstaða stjórnvalda sé að breytast.