Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sá þingmaður sem fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar í fyrra. Það þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra, og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Til samanburðar má nefna að Hringvegurinn, Þjóðvegur 1, er 1.322 kílómetrar. Ásmundur keyrði því tæplega 36 sinnum hringinn í kringum landið á síðasta ári.
Ásmundur sagði í Morgunútvarpi Rásar 2í morgun að hann keyrði 20 til 25 þúsund kílómetra á ári til að fara í vinnu. Hann sinni auk þess kjördæmi sínu, sem sé 700 kílómetra langt, afar vel. „Það líða ekki margar helgar sem ég hef frí frá því að sinna erindum í kjördæminu, fara út á meðal fólks, mæta á allskonar uppákomur og svo eru sumrin upptekin af allskonar bæjarhátíðum.“
Keyrði þriðjungi meira en næsti maður
Sá þingmaður sem keyrði næst mest keyrði 35.065 kílómetra og fékk tæplega 3,5 milljónir króna í endurgreiðslur frá ríkinu vegna þess. Keyrsla þingmannsins í öðru sæti var 33 prósent minni en keyrsla Ásmundar. Alls fengu þeir þingmenn sem kröfðust hæstu endurgreiðslunnar vegna aksturs 29,2 milljónir króna í endurgreiðslur í fyrra.
Endurgreiðslurnar hafa dregist mikið saman á undanförnum árum eftir að þingmenn voru sérstaklega hvattir til þess að notast frekar við bílaleigubíla en að nota eigin bíla við akstur um kjördæmið og krefjast síðan endurgreiðslu. Árið 2013 nam endurgreiðsla til þingmanna vegna aksturskostnaðar 59,8 milljónum króna og keyrðir kílómetrar sem krafist var endurgreiðslu fyrir voru alls 529,6 þúsund, eða tæplega helmingi fleiri en þeir voru í fyrra.
Á árinu 2016 fóru tvær af hverjum þremur krónum sem voru endurgreiddar vegna aksturskostnaðar til þingmanna Suðurkjördæmis. Þrátt fyrir margar fyrirspurnir, frá þingmönnum og fjölmiðlum, þá hefur Alþingi ætíð neitað að greina frá því hvað hver þingmaður hefur fengið í akstursgreiðslur.
Allskyns viðbótargreiðslur
Þingfararkaup alþingismanna er 1.101.194 krónur á mánuði. Til viðbótar fá varaforsetar Alþingis 15 prósent álag á þingfararkaup, formenn fastanefnda fá sama álag ofan á sín laun, varaformenn nefndanna fá tíu prósent og aðrir varaformenn fimm prósent. Þeir þingmenn sem eru formenn stjórnarflokka,en eru ekki ráðherrar, fá greitt 50 prósent álag á þingfararkaup.
Skrá sjálfir aksturinn
Akstur einstakra þingmanna innan lands fer svo eftir mjög skýrum reglum. Litið er svo á að aksturinn tengist starfi alþingismanna fyrir umbjóðendur, varði samband þeirra við kjósendur og sé því þeirra mál eins og ýmislegur annar kostnaður við starf þingmanna.
Þingmennirnir sjálfir skrá hversu mikið þeir keyra vegna starfa sinna og fá svo kostnaðinn vegna akstursins endurgreiddan. Sá sem keyrði mest í fyrra fékk, líkt og áður sagði, um 385 þúsund krónur endurgreiddar á mánuði vegna aksturs í starfi.
Sá sem keyrði næst mest fékk um 288 þúsund krónur í endurgreiðslur á mánuði að meðaltali og sá sem situr í þriðja sæti um 257 þúsund krónur á mánuði.