Nú standa yfir Vetrarólympíuleikar í PyeongChang í Suður-Kóreu og þrátt fyrir að þeir séu með þeim kaldari um árabil þá sýna rannsóknir að loftslagsbreytingar gætu haft áhrif á leikana í framtíðinni. Með hækkandi hitastigi þá fækkar borgum sem geta haldið leikana og hefur það jafnframt áhrif á allar vetraríþróttir víðsvegar um heiminn.
Þetta er áhyggjuefni, að mati Terrence Burns íþróttasérfræðings, og segir hann að eftir því sem færri borgir komi til greina þá sé möguleiki á að sömu borgirnar haldi Vetrarólympíuleikana aftur og aftur. Þetta kemur fram í tímaritinu TIME.
Einungis 8 staðir eða borgir af þeim 21 sem haldið hafa Vetrarólympíuleikana gætu gert það árið 2100. Frá þessu er grein í rannsóknum sem unnar voru á vegum Waterloo-háskólans í Kanada og birtar í janúar síðastliðnum. Meðalhiti á Vetrarólympíuleikunum á sjöunda áratug síðustu aldar var í kringum frostmark en á þessari öld um 7 gráður á selsíus.
Borgir á borð við Chamonix and Innsbruck í Alpafjöllunum gætu hætt að vera raunhæfur kostur fyrir Vetrarólympíuleika í framtíðinni ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Sochi, gestgjafi leikanna árið 2014, er ólíklegur kostur til að halda hátíðina aftur af sömu ástæðu.
Albertville, Peking, Calgary, Cortina d’Ampezzo, PyeongChang, St. Mortiz, Salt Lake City og Sapporro eru meðal þeirra borga sem enn myndu koma til greina eftir 60 til 70 ár, samkvæmt rannsókninni.
Segir í grein TIME að jafnvel þótt borgir geti haldið leikana þá aukist kostnaðurinn gríðarlega en dýrt sé að útvega snjó fyrir útiviðburði. Þetta hafi verið raunin í Sochi árið 2014 og Vancouver árið 2010.