Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að til skoðunar hafi verið á undanförnum mánuðum, og meðal annars rætt í forsætisnefnd Alþingis, að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna þannig að aðgangur að þeim verði öllum auðveldur og þær birtar á vef þingsins. „Fyrir hafa legið í drögum reglur um fyrirkomulagið og hefur í þeim efnum verið horft til þess hvernig önnur þing haga upplýsingum um þessi mál. Markmiðið er að engin leynd sé yfir neinu sem varðar almenn kjör og greiðslur til þingmanna og fullkomið gagnsæi ríki. – Þingmönnum er að auðvitað í sjálfsvald sett hvaða upplýsingum þeir koma sjálfir á framfæri um sín kjör, eins og verið hefur.“
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Steingrímur sendi frá sér í dag.
Þar segir að Alþingismönnum hafi síðustu daga borist margvíslegar fyrirspurnir um greiðslur tengdar starfi þeirra á Alþingi. Tilkynningin er send út af því tilefni. Steingrímur segir að Alþingi hafi með markvissum hætti „reynt að skapa góða umgjörð störf og kjör þingmanna, þar á meðal með siðareglum og reglum um hagsmunaskráningu þingmanna sem eru á vef þingsins. Sú aukna upplýsingagjöf sem í vændum er mun bætast þar við.“
Akstursgreiðslur til þingmanna ekki persónugreinanlegar
Ástæða þess að fjöldi fyrirspurna hefur borist frá fjölmiðlum er sú að síðastliðinn fimmtudag svaraði forseti Alþingis fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Píratar, um aksturskostnað. Í svari forseta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þingmenn sem fengu hæstu skattlausu endurgreiðslurnar þáðu á síðustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvaða aðrir þingmenn eru á topp tíu listanum.
Fjölmiðlar hafa árum saman reynt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn fái endurgreiðslu vegna aksturs, en án árangurs. Kjarninn fjallaði til að mynda um málið í fréttaskýringu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þingmenn hefðu fengið endurgreiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn var að ræða. Þær upplýsingar þóttu þá sem nú of persónulegar.