Árið 2017, voru að jafnaði 17.599 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 658 eða 3,9 prósent frá árinu 2016. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofunnar. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 188.600 einstaklingum laun og fjölgaði þeim um 8.500 eða 4,7 prósent frá fyrra ári.
Launþegum fjölgar milli ára í byggingariðnaði og ferðaþjónustu en fækkar í sjávarútvegi. Í desember 2017 voru 2.744 launagreiðendur og um 13.100 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 1.700, 15 prósent, samanborið við desember 2016. Í desember voru í einkennandi greinum ferðaþjónustu 1.803 launagreiðendur og um 25.900 launþegar og hafði launþegum fjölgað um 1.600, 6 prósent, á einu ári. Á sama tímabili hefur launþegum í heild fjölgað um 7.500 eða 4 prósent.
Hagstofan tekur fram að í þessum tölum eru ekki upplýsingar um einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun, en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum svo dæmi séu tekin. Því mætti ætla að þær tölur gætu í raun verið nokkuð hærri.