Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag, að lífeyrissjóðurinn hafi bakkað út úr viðræðum um kaup á hlut í Arion banka, fyrir útboð og skráningu, meðal annars vegna skorts á gagnsæi í söluferlinu.
Þá segir hann að framtíðarsýn fyrir hönd bankans hafi mátt vera skýrari í viðræðunum, og að LSR, eins og aðrir lífeyrissjóðir, þurfi að meta sínar fjárfestingar eftir áhættu og öðrum þáttum, en nú leggur sjóðurinn meðal annars áherslu fjárfestingar erlendis.
Íslenska ríkið á 13 prósent hlut í Arion banka, Kaupskil fara með 57 prósent hlut, og vogunarsjóðir og Goldman Sachs, eiga um 30 prósent.
Unnið er að undirbúningi skráningar bankans á markað, síðar á þessu ári, og hefur Kvika umsjón með ferlinu fyrir hönd Kaupskila. Viðræðum hefur ekki verið slitið við tryggingarfélög og fjárfestingasjóði, um að kaupa hlut í bankanum áður en til útboðs kemur.
Miðað við bókfært eigið fé Arion bankans er hlutur ríkisins um 29 milljarða króna virði, og bankinn því með verðmiða upp á 223 milljarða króna sé miðað við það verð.