Hlutfalls ungs fólks, á aldrinum 18 til 29 ára, sem leitar til embættisins í greiðsluvanda vegna smálána hefur margfaldast á síðustu árum. Í tölum frá Umboðsmanni skuldara kemur fram að heildarskuldir þessa hóps rúmlega námu árið 2012 alls um 18 milljörðum, sem voru mest til komnar vegna húsnæðislána, eða 11 milljarðar. Aðeins tæplega 14 milljóna smálánaskuldir voru í þessum aldurshópi árið 2012. Á síðasta ári voru heildarkröfur á þennan hóp rúmlega 5,5 milljarður, þar af 1,5 milljarður vegna húsnæðislána, en smálánin voru komin upp í tæplega hundrað milljónir. Hlutfall þeirra sem leituðu í fyrra til umboðsmanns skuldara og áttu útistandandi smálánaskuld var 43 prósent. Árið 2012 var þetta hlutfall rúmlega sex prósent. Aðrar skuldir geta verið ýmis konar, skuldir vegna reksturs húsnæðis, sektir og sakarkostnaður og önnur neyslulán eins og til að mynda yfirdráttarlán.
Sara Jasonardóttir, verkefnastjóri fræðslu- og kynningarmála hjá Umboðsmanni skuldara, segir að þau hjá embættinu hafi áhyggjur af þessari þróun. Hún segir töluvert um raðgreiðslulán hjá þessum hópi, en ástæða þess að farið var að greina smálánahlutfallið sérstaklega var tilfinning sem þau hafi haft. „Það er augljóst að þarna eru einhverjar áherslur sem þarf að breyta, þetta hefur verið að aukast hægt og bítandi hjá yngsta aldurshópnum og það er einnig áhyggjuefni að meira en 50 prósent þeirra sem leita til okkar eru undir fertugu. En það veldur manni mestum áhyggjum er að þessi yngsti hópur sé að stækka svona,“ segir Sara.
Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar
Aur býður nú upp á nýja þjónustu, Segðu bless við bankann, Netgíró bauð fólki að borga jólin í febrúar og Arion banki hefur að auki hafið nýja þjónustuleið, Núlán, þar sem hægt er að fá skammtímalán. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans vinnur Íslandsbanki nú einnig að því að bjóða upp á sambærilega þjónustu, neytendalán til viðskiptavina upp í tvær milljónir án greiðslumats.
Ekki fengust upplýsingar frá Landsbankanum um hvort til stæði að bjóða upp á sambærilegan valkost. Pei, Kredia, Smálán og Hraðpeningar eru öll með virkar heimasíður þar sem hægt er að fá lánað með skömmum fyrirvara, auk þess sem bankarnir þrír bjóða upp á yfirdráttarlán en allar þessar leiðir eru sagðar vera fyrir þá sem þurfa tiltölulega lágar upphæðir lánaðar í stuttan tíma. Og fleiri aðilar bjóða upp á sambærilega þjónustu.
Eftir hrunið voru sett ný lög um neytendalán. Þak var sett á árlega hlutfallstölu kostnaðar sem er prósentutala þar sem vextir og lántökukostnaður er mældur á ársgrundvelli. Kostnaður við lán má ekki vera meiri en svo að árleg hlutfallstala kostnaðar má aldrei vera hærri en 50 prósent að viðbættum stýrivöxtum. Neytendur geta borið saman þessa einu tölu og fundið út hvaða lánveitandi er með hagkvæmast lánstilboðið. Mikilvægt er samkvæmt lögunum að þessi árlega hlutfallstala kostnaðar sé tilgreind á skýran og áberandi hátt. Mismunandi er eftir fyrirtækjum hvar í ferlinu hægt er að nálgast slíkar upplýsingar, en oft er það ekki fyrr en á lokastigum lántökunnar, enda getur verið erfitt að reikna slíkt út nema lánsfjárhæðin og lánstíminn liggi fyrir.
Auðvelt lán er dýrt lán
Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi segir að í lögunum komi fram að í öllum auglýsingum um lánveitingar þurfi að taka sérstaklega fram hver árleg hlutfallstala kostnaðar sé. „Því miður hefur verið ótrúlegur misbrestur á því.“ Hann segir að með þessu sé neytendum ekki gert kleift að bera saman lánamöguleikana til að geta fundið besta kostinn. Hann segir að í gegnum tíðina hafi yfirdráttarlánin almennt verið dýrustu lánin á markaðnum og hafa borið eitthvað í kringum 12 prósent vexti, sem geri eitthvað í kringum 14 prósent í árlega hlutfallstölu kostnaðar. „Ég var í gamni mínu að reikna það um daginn, að mörg þessara nýju lána, ef þú tekur til dæmis eina milljón í eitt ár geturðu til dæmis verið að borga allt að 30 prósent í árlega hlutfallstölu kostnaðar,“ segir Breki.
Hann segir það þumalputtareglu, annars vegar að taka ekki lán fyrir neyslu. En þurfi að koma til þess sé það hins vegar einnig þumalputtaregla að þeim mun auðveldara sem það er að fá lánað þeim mun dýrara er það. „Með öllu þessu frelsi, sem getur verið frábært, öllum þessum möguleikum og aðgengi að lánum þá þurfum við að gæta að því sem þjóðfélag að allir sitji við sama borð og geti tekið meðvitaða ákvörðun um þessa möguleika. Því miður er það þannig að við höfum ekki verið nógu dugleg við að fygja því eftir að fyrirtækin fari að lögum og þannig veiti neytendum tækifæri til að geta tekið upplýstar ákvarðanir.“
Smálán eru okurlán
Brynhildur Pétursdóttir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna segir í samtali við Kjarnann að fylgst sé grannt með þessum lánveitingum, bæði smálánum og öðrum neyslulánum. „Þetta er tvenns konar. Annars vegar þessi smálán sem er bara okurlánastarfsemi og hefur verið stanslaust fyrir dómstólum. Þau fyrirtæki hafa bara farið framhjá skilyrðum laganna sem átti að takmarka hvað vextir gætu verið háir af svona lánveitingum. En á meðan þetta er í meðferð fyrir dómstólum þá halda lánin bara áfram og menn virðast geta grætt svo mikið á þessu að það borgi sig að bera kostnað á málarekstri fyrir dómstólum og tapa,“ segir Brynhildur.
Síðan séu það þessar skammtímalánaleiðir sem hafa verið að koma fram í meiri mæli nýverið sem samtökin eru að fylgjast með. Öll gætum við einhvern tímann á lífsleiðinni þurft lán, til lengri eða skemmri tíma. Brynhildur segir þau þurfa að vera skynsamleg og mikilvægt sé að þróunin verði ekki með sama hætti og hún var fyrir hrunið. „Auðvitað fléttast inn í þessa umræðu sjónarmið um viðskiptafrelsi og hversu langt eigi að ganga í forræðishyggju við að hafa vit fyrir fólki. En það skiptir máli að upplýsa fólk um nákvæmlega hvað það er að gera þegar það tekur þessi lán,“ segir Brynhildur.
Greinin birtist fyrst í styttra formi í Mannlífi.