Forsætisnefnd fundaði um endurgreiðslur kostnaðar til þingmanna í morgun. Í samtali við Kjarnann segir Jón Þór Ólafsson nefndarmaður og þingmaður Pírata og næstu skref séu þau að nefndin hefur kallað eftir úttekt skrifstofustjóra Alþingis á því hvernig lögum um þingfararkaup hefur verið háttað og þeim framfylgt. Það er að segja, hvers vegna þingmönnum sem keyrt hafa meira en 15 þúsund kílómetra á eigin bíl hafi fengið endurgreiddan aksturskostnað umfram þá keyrslu. Í reglum Alþingis sé kveðið á um að eftir svo mikla keyrslu skuli þingmenn taka bílaleigubíl frekar en að keyra á sínum eigin þar sem það sé ódýrara.
Jón Þór, sem lýsti því yfir fyrir helgi að hann hygðist leggja það til í nefndinni að máli Ásmundar Friðrikssonar, sem fékk í fyrra 4,6 milljónir í endurgreiddan aksturskostnað, verði vísað til siðanefndar Alþingis. Í siðareglunum er þingmönnum gert að sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál. Í reglunum er einnig kveðið á um að alþingismenn skuli nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti og ekki nýta stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra.
Jón Þór segir einnig að þar sem forsætisnefndin sé í raun stjórn þingsins sé erfitt fyrir þá þingmenn sem í nefndinni sitja að í raun rannsaka sig sjálfa. Hann bendir þó á að hver sem er, þar með talinn almenningur, geti sent inn erindi um að viðkomandi sýnist þingmaður hafa brotið siðareglur. „Þá verður forsætisnefnd að taka upp það erindi og vinna með það,“ segir Jón Þór.