Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir niðurstöðu ASÍ um að forsendur kjarasamninga séu brostnir komi henni ekki á óvart. Í samtali við Kjarnann sgir hún að ASÍ hafi til að mynda haft mjög skýra sýn hvað varði úrskurði kjararáðs, þó þeir séu ekki nefndir sérstaklega í yfirlýsingu sambandsins sem send var út fyrr í dag.
Katrín segist telja að samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins á undanförnum vikum hafi gengið mjög vel. „Ég tel að það hafi til dæmis skilað þeim niðurstöðum að það eru allir sammála um hvernig eigi að breyta fyrirkomulagi títtnefnds kjararáðs,“ segir Katrín.
Hún nefnir einnig það að fjórtán aðildarfélög BHM hafi nú samþykkt kjarasamninga við ríkið og vonast til að framþróunin verði þannig að hægt verði að halda samtalinu áfram. „Við þurfum að setja niður áætlun um hvaða mál við viljum fara dýpra ofan í og skýra betur aðkomu stjórnvalda um að tryggja hér ekki aðeins efnahagslegan stöðugleika heldur einnig félagslegan.“
Katrín segist munu eiga fund með forystumönnum ASÍ á morgun til að ræða þessi mál. „Stjórnvöld eru að minnsta kosti öll að vilja gerð til þess að eiga gott samtal við aðila vinnumarkaðarins og við förum bara yfir þessa stöðu núna.“
Gylfi segir ekki of seint að bregðast við
Í samtali við Kjarnann segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ að málið sé enn í skoðun. Miðstjórn ASÍ hefur ákveðið að boða til formannafundar aðildarfélaga sambandsins miðvikudaginn 28. febrúar næstkomandi þar sem fjallað verður um stöðuna og ákvörðun tekin um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar.
Gylfi segir að ákvarðanir liggi í höndum formanna aðildafélaga ASÍ og að ljóst sé að fundarboðið sé vegna þess að mat ASÍ sé að forsendur kjarasamninga séu brostnar. „Enn er verið að vinna í þessum málum en matið á stöðunni er svona,“ segir hann.
Hann bætir því við að hægt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru komnar og að enn sé tími og rúm til viðbragða af hálfu stjórnvalda áður en endanleg ákvörðun verði tekin.