Upplýsingar um þingfararkostnað alþingismanna verður birtur á sérstakri vefsíðu og verða þær miðaðar við 1. janúar 2018 og uppfærðar mánaðarlega framvegis. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis. Ekki hefur verið ákveðið að birta greiðslur til þingmanna fyrir þann tíma.
Í tilkynningunni segir að á fundi forsætisnefndar Alþingis í morgun hafi verið samþykktar samhljóða breytingar á reglum um þingfararkostnað. Í þeim felast þrjár efnisbreytingar:
Í fyrsta lagi verða ákvæði um bílaleigubíla gerð skýrari, einkum fyrir þá þingmenn sem falla undir svokallaðan heimanakstur, þ.e. akstur til og frá heimili daglega um þingtímann. Það eru þingmenn sem búa í nágrenni Reykjavíkur (á Suðurnesjum, Vesturlandi, Árnessýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bifreiðum, sem kemur til endurgreiðslu, verður bundinn hámarki við 15.000 km. Í öðru lagi eru sett skýrari ákvæði um staðfestingargögn sem eru grundvöllur endurgreiðslu. Loks eru ný ákvæði um með hvaða skilmálum þingmenn geta notað bílaleigubíl. Breytingar þessar á reglunum um þingfararkostnað verða birtar á vef Alþingis á morgun. Þá samþykkti forsætisnefnd í gær, þar sem einnig sátu formenn þingflokka, vinnureglur um birtingu upplýsinga um allan þingfararkostnað eins og áður segir. Upplýsingarnar munu birtast á sérstakri síðu og snýr það að framtíðar-fyrirkomulagi þessara mála. Upplýsingar verða miðaðar við 1. jan. 2018 og verða uppfærðar mánaðarlega framvegis.
Í tilkynningunni segir að með þessu sé fyrsta áfanga í breyttri framkvæmd lokið. Ýmis önnur atriði koma svo til athugunar síðar, þar á meðal frekari upplýsingagjöf um það sem liðið er. Unnið er að tæknilegum undirbúningi síðunnar, en vonast er til að birting upplýsinga, a.m.k. hluta þeirra, geti hafist næstu daga og komi til fullrar framkvæmdar á næstu tveim vikum eða svo, eftir því hvernig tæknilegri vinnu vindur fram.