Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata hefur sent formlegt erindi til forsætisnefndar þess efnis að rannsaka þurfi meint brot á siðareglum vegna akstursgreiðslna.
Þannig taki nefndin það til umfjöllunar hvort siðareglur alþingismanna hafi verið brotnar og að nefndin fjalli einnig um hvort skrifstofa og skrifstofustjóri Alþingis hafi vanrækt skyldur sínar varðandi eftirlit með endurgreiðslum til þingmanna.
Þá óskar Björn þess sérstaklega að forsætisnefnd taki rökstudda afstöðu til eigin hæfis til þess að koma að þessari athugun, og vísar í því samhengi til 8. og 9. greinar siðareglna þingmanna sem segja til um að þingmenn verði að greina frá sínum persónulegu hagsmunum við meðferð mála og hvort uppi kunni að vera hagsmunaárekstrar sem leitt geti til vanhæfis.
Erindi Björns Leví má lesa í heild sinni hér að neðan:
Til forsætisnefndar,
Með vísan í 16. gr. siðareglna alþingismanna og reglur forsætisnefndar um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn leggur undirritaður fram eftirfarandi erindi til forsætisnefndar:
Í þingskjali 270, í 33. máli á 148. löggjafarþingi kemur fram svar forseta Alþingis við
fyrirspurn undirritaðs um aksturskostnað alþingismanna. Í svari forseta má finna upplýsingar sem sýna að endurgreiðsla til þingmanna hafi ekki verið í samræmi við reglur forsætisnefndar um þingfararkostnað. Telur undirritaður að þetta kunni að varða við 14. gr. siðareglna alþingismanna.
Undirritaður hefur fengið bréf frá lagaskrifstofu Alþingis, en í því kemur eftirfarandi fram:
Hér gilda lögin um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995 og reglur forsætisnefndar frá 19. desember 2007 með síðari breytingum. Um endurgreiðslu ferðakostnaðar þingmanna er fjallað í 7. gr. þingfararkaupslaganna. Greint er á milli ferðalaga innan kjördæmis og milli heimils og Reykjavíkur (1. mgr. 7. gr.). Fjallað er nánar um endurgreiðslu ferðakostnaðar í 4. – 5. gr. reglna forsætisnefndar og í 6. gr. þeirra um tilhögun á greiðslu ferðakostnaðar, en sú grein hefur einkum verið til umfjöllunar. Skv. 16. gr. þingfararkaupslaganna er gert ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis úrskurði um reikninga þá sem alþingismanni skulu endurgreiddir skv. lögunum. Enn fremur að þingmaður geti skotið ákvörðun skrifstofunnar til forsætisnefndar sem úrskurðar endanlega í málinu. Að auki er gert ráð fyrir því að forsætisnefnd skeri úr um vafa sem kann að vera um rétt alþingismanns samkvæmt lögunum. Í því felst túlkun laganna t.a.m. með setningu reglna og að svara álitaefnum um framkvæmd þeirra.
Samkvæmt þessu er skrifstofu Alþingis ætlað að bregðast við ef hún hefur vitneskju um að reikningur sé ekki réttur. Ef skrifstofan neitar að greiða reikninginn, getur þingmaðurinn skotið málinu til forsætisnefndar, sem sker úr.
Forsætisnefnd fjallar einnig um rökstudd erindi um brot á siðareglum alþingismanna, sbr. 16. grein reglnanna, t.a.m. hvort þingmaður hafi brotið 14. gr. þeirra. Þá er ekki heldur útilokað að meint brot þingmanns verði kært til lögreglu, sem myndi þá fjalla um málið að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. 1. mgr. 17. gr. siðareglnanna. Af bréfi þessu má sjá að skrifstofu Alþingis ber að bregðast við ef hún hefur vitneskju um að reikningur sé ekki réttur. Þannig hafi skrifstofa Alþingis eftirlitsskyldu þegar kemur að endurgreiðslum til þingmanna, en vitneskja um að reikningur sé ekki réttur getur aðeins komið til af því tilefni að skrifstofa Alþingis hafi eftirlit með endurgreiðslunum. Undirritaður vísar til svars skrifstofustjóra Alþingis við fyrirspurn Stundarinnar þann 19. febrúar 2018:
Skrifstofa Alþingis hefur ekki talið það vera í verkahring sínum að leggja mat á það hvort þingmaður á erindi á fund sem hann er til dæmis boðaður á eða hvort rétt hafi verið að hann boðaði til fundar. Slíkt verður að vera í höndum þingmannsins sjálfs. Telur undirritaður að þessi túlkun skrifstofustjóra Alþingis sé í andstöðu við túlkun lagaskrifstofu Alþingis á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað.
Þá vísar undirritaður að lokum til blaðagreinar sem birtist í vefútgáfu Fréttablaðsins þann 17. febrúar 2018 sem bar titilinn „ Röng skráning í akstursbók geti talist fjársvik “, en í greininni lýsti Jón Þór Ólason, sérfræðingur í refsirétti, því að röng skráning í akstursbók gæti talist fjársvik í skilningi almennra hegningarlaga.
Í 14. gr. siðareglna alþingismanna segir að þingmenn skuli sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar séu um slík mál. Ábyrgð
þingmanna er því skýr og óskar undirritaður eftir því að fram fari rannsókn á því hvort
samræmi sé á milli reikninga þingmanna og endurgreiðslna sem inntar hafa verið af hendi.
Þess er óskað að tekin verði afstaða til þess hvort siðareglur, hátternisreglur eða lög hafi verið brotin þegar málsathugun lýkur samkvæmt 17. gr. siðareglna alþingismanna.
Með vísan til ofangreindra atriða er þess óskað að forsætisnefnd taki til umfjöllunar hvort
siðareglur alþingismanna hafi verið brotnar, sbr. 16. gr. siðareglnanna. Einnig er þess óskað að nefndin taki til umfjöllunar hvort skrifstofa og skrifstofustjóri Alþingis hafi vanrækt skyldur sínar varðandi eftirlit með endurgreiðslum til þingmanna. Er í því samhengi vísað til 11. gr. laga um þingsköp, þar sem segir að skrifstofustjóri skuli starfa í umboði forseta Alþingis.
Þess er sérstaklega óskað að forsætisnefnd taki rökstudda afstöðu til hæfis nefndarmanna til aðkomu að athugun þeirri sem óskað er í þessu erindi. Meðal annars hvað varðar persónulega hagsmuni og hvort uppi kunni að vera hagsmunaárekstrar sem leiða til vanhæfis. Vísar undirritaður í því samhengi til 8. og 9. gr. siðareglna alþingismanna.