Íslenskir grunnskólanemendur koma ár eftir ár langverst allra á Norðurlöndunum úr PISA-könnuninni svokölluðu. Í öllum fögum sem mæld eru er Ísland undir meðaltali OECD-ríkja og engin bæting hefur verið í niðurstöðunum frá árinu 2012.
Brottfall úr skóla er miklu meira hér en í nágrannalöndunum og feikilegur munur er á getu nemenda af erlendum uppruna og þeirra sem fæðast hérlendis þegar kemur að árangri í skóla. Þetta er meðal þess sem kom fram í skýrslu sem Norræna ráðherranefndin gaf út nýverið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmála, var gestur sjónvarpsþáttar Kjarnans á Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudag og ræddi þessar miklu áskoranir. Þar fór hún líka yfir þær aðgerðir sem hún hyggst ráðast í til að takast á við kennaraskort sem stefnir að óbreyttu í að verða mjög alvarlegur á næstu árum. Hægt er að sjá brot úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Varðandi stöðu nemenda af erlendum uppruna, sem eiga mun erfiðara um vik í íslensku menntakerfi en þau börn sem fæðast hérlendis, segir Lilja að hún hafi verið að hugsa um þau mál frá því að hún varð varaformaður menntaráðs Reykjavíkurborgar árið 2006. Þá hafi henni þótt tími til að grípa til aðgerða. Og þess frekar nú, tólf árum síðar. „Við sjáum líka að þessu er mjög skipt eftir borgarhlutum. Í gamla skólanum mínum, Fellaskóla, þar er mjög hátt hlutfall barna af erlendum uppruna. Á gamla leikskólanum mínum, Fellaborg, ég heyrði tölur um að það væru komin 90 prósent barna af erlendum uppruna. Mitt markmið sem menntamálaráðherra er að þessi börn hafi sömu tækifæri í íslensku skólakerfi eins og önnur börn. Þetta eru allt börn. Þetta eru allt íslensk börn.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan: