Búið er að opna nýja upplýsingasíðu á vef Alþingis, þar sem birtar eru fastar launagreiðslur til þingmanna og fastar kostnaðargreiðslur. Í næstu viku er gert ráð fyrir að opna næsta áfanga, sem mun birta upplýsingar um greiðslur sem eru breytilegar, þar með taldar endurgreiðslur fyrir útlagðan ferðakostnað.
Aðeins er miðað við birtingu upplýsinga frá 1. janúar 2018. Þó er að hefjast undirbúningur að því að birta gögn frá liðnum tíma og miðast sá undirbúningur við að farið verði um áratug aftur í tímann.
Á síðunni nýju er hægt að skoða fyrir hvern þingmann, meðal annars hver laun hans eru, hverjar fastar kostnaðargreiðslur eru til hans og hvað hann hefur fengið endurgreitt fyrir útlagðan kostnað. Í þessu felast upplýsingar um til að mynda álagsgreiðslur, húsnæðis- og dvalarkostnað og ferðakostnað innanlands.