Kjarasamningar ASÍ við SA halda. Formannafundur greiddi leynilega atkvæði um uppsögn á samningunum rétt í þessu á fundi sínum á Hótel Nordica.
Alls eiga 44 félög aðild að kjarasamningunum en töluvert fleiri hafa atkvæðisrétt á fundinum. Innan sumra félaga eru til dæmis iðnaðarmanna- og verslunarmannadeildir og fulltrúar þeirra höfðu einnig atkvæðisrétt. Auk þeirra formaður Rafniðnaðarsambandsins og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. Alls greiddu því 49 atkvæði á fundinum.
Já, vil segja upp 21 (42,9%)
Nei, vil ekki segja upp 28 (57,1%)
Vægiskosning:
Já 52.890 (66,9%)
Nei 26.172 (33,1%)
Greint var frá því fyrr í dag að formenn bæði Eflingar og VR, tveggja stærstu aðildarfélaga ASÍ, hefðu ætlað að greiða atkvæði með því að segja samningunum upp. Þar með var ljóst að fulltrúar meirihluta félagsmanna ASÍ væru á þeirri skoðun. Hins vegar þurfti einnig meirihluta atkvæða formanna þeirra aðildarfélaga sem atkvæðarétt eiga á fundinum, sem eru alls 59. Meirihluti þeirra virðist hins vegar hafa kosið að halda samningunum til streitu.
Bæði þurfti meirihluta þeirra fundarmanna sem fara með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa til að fella samningana.
Auk fulltrúa Eflingar og VR hafa fulltrúar AFLs starfsgreinafélags og Verkalýðsfélags Akraness staðfest að þeir vilji segja samningunum upp.
Í tilkynningu frá ASÍ segir að þeir sem vildu halda í samninginn hafi talað um að aðeins væru 9 mánuðir eftir af samningnum og hann tryggði 3 prósenta almenna launahækkun 1. maí og rúmlega 7 prósenta hækkun lágmarkslauna. Nota ætti tímann til hausts til að móta kröfugerð og undirbúa næstu kjaraviðræður.
„Það var þungt hljóð í þeim sem vildu segja upp og sterk krafa um að verkalýðshreyfingin setti fótinn niður í samfélagi misskiptingar. Stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir að taka til sín ávinning af starfi verkalýðshreyfingarinnar sem hefur lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa, en stjórnvöld tekið að stórum hluta til baka með skerðingu bóta. Úrskurðir kjararáðs og hækkanir á launum æðstu stjórnenda banka og Landsvirkjunar urðu auk þess mörgum fundarmönnum tilefni til gagnrýni,“ segir í tilkynningunni.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því halda fram til áramóta.