Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í kjararáði og stjórn Landsvirkjunar. Ákvarðanir sem bæði ráðið og fyrirtækið, undir hans stjórn, hafa tekið hefur sett stöðugleika á vinnumarkaði í algjört uppnám og gætu jafnvel orðið þess valdandi að kjarasamningum verði sagt upp í dag. Formannafundur ASÍ fundar nú á Hilton Nordica hótelinu þar sem kosið verður um uppsögn kjarasamninga.
Hver er Jónas Þór?
Jónas hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í fjölda ára. Hann var stjórnarmeðlimur í Stefni, félagi ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði frá árunum 1994 til 1998 og þar af formaður í eitt ár. Á árunum 1997 til 1999 var hann varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, en þá gegndi Ásdís Halla Bragadóttir formennsku. Jónas bauð sig fram í það embætti en laut í lægra haldi fyrir Sigurði Kára Kristjánssyni í kosningu árið 1999, sem síðar varð þingmaður flokksins.
Jónas hefur í gegnum tíðina gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar meðal setið í embætti formanns kjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi sem og gegnt formennsku í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi. Hann hefur setið í miðstjórn flokksins sem og flokksráði þess. Framkvæmdastjórn flokksins er í höndum miðstjórnar sem ber ábyrgð á öllu innra starfi flokksins, hefur eftirlits- og úrskurðarvald um allar framkvæmdir á vegum hans, hefur umráð yfir eignum og gætir þess að skipulagsreglum sé fylgt. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur það hlutverk að marka stjórnmálastefnu flokksins ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar. Ekki má taka ákvörðun um afstöðu flokksins til annarra stjórnmálaflokka nema með samþykki flokksráðs og kemur ráðið því til dæmis saman þegar ný ríkisstjórn er mynduð með aðild Sjálfstæðisflokksins.
Jónas var einnig um tíma formaður stjórnar Lögmannafélags Íslands en hann starfar alla jafna sem sjálfstætt starfandi lögmaður og rekur eigin lögmannsstofu í Hafnarfirði. Áður en hann varð lögmaður starfaði Jónas á lagaskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins en fyrir þann tíma sem kennslustjóri við lagadeild Háskóla Íslands.
Afleiðingar ákvarðana kjararáðs
Málefni kjararáðs gætu mögulega verið í þann mund að leiða til þess að verkalýðsforystan slíti kjarasamningum vegna forsendubrests. Þar gegnir Jónas Þór formennsku en skipað var í kjararáð í júlí 2014 og sú skipun rennur út í júní á þessu ári. Þrír eru kosnir af Alþingi í ráðinu, tveir af Hæstarétti og einn af fjármála- og efnahagsráðherra.
Starfshópur sem skipaður var af forsætisráðherra til að fjalla um málefni kjararáðs í lok janúar á þessu ári var sammála um að kjararáð hafi í ákvörðunum sínum um kjör æðstu stjórnenda ríkisins farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá árinu 2015, ákvarðanir þess verið óskýrar, ógagnsæjar og ekki samræmst fyrirmælum í lögum um störf ráðsins. Lagði starfshópurinn til að kjararáð yrði lagt niður og útafkeyrsla þess yrði leiðrétt. Stirrinn núna stendur um með hvaða hætti útafkeyrslan verður leiðrétt, en ASÍ vill að það verði gert strax, með lækkun þessara launa. Sem dæmi má nefna að laun ráðherra hafa hækkað um 64 prósent eða um 800 þúsund á mánuði, laun skrifstofustjóra í ráðuneytum um 52 prósent eða um 570 þúsund krónur á mánuði og laun þingmanna um 48 prósent eða um 377 þúsund krónur á mánuði. Meirihluti starfshópsins vill ekki framkalla lækkunina strax heldur „frysta“ laun þeirra þar til þau nái viðmiðum rammasamkomulagsins. Ef farið yrði að tillögu ASÍ myndu laun ráðherra lækka um um það bil 300 þúsund á mánuði, ráðuneytisstjóra um 107 þúsund, laun skrifstofustjóra um rúmlega 100 þúsund og laun þingmanna um 65 þúsund krónur á mánuði.
ASÍ heldur því fram að frysting launa æðstu stjórnenda ríkisins gæti varað út árið 2018 fyrir suma en nokkur ár fyrir þá sem fengu mesta hækkun með úrskurðum kjararáðs. ASÍ telur að með því að „frysta“ haldi þessi hópur ekki einasta ofgreiddum launum upp á 671 milljón króna heldur fái áframhaldandi ofgreiðslur upp á 378 miljónir til viðbótar þar til frystingunni líkur. Þegar upp verður staðið mun útafkeyrsla kjararáðs kosta ríkissjóð um 1.3 milljarða. Þannig myndu 473 milljónir króna sparast ef farið væri að tillögu ASÍ.
Úrskurðir um launahækkanir kjararáðs hafa ítrekað ratað í fréttir á undanförnum árum. Kjararáð úrskurðar um launahækkanir þjóðkjörinna fulltrúa og ráðherra, um laun dómara og embættismanna, forstöðumanna ríkisstofnana og framkvæmdastjóra hlutafélaga í meiri hluta eigu ríkisins.
Launahækkanir í Landsvirkjun sprengja inn í viðkvæmar viðræður
Jónas var gerður að stjórnarformanni Landsvirkjunar sama ár, 2014. Auk hans sitja í stjórninni Haraldur Flosi Tryggvason héraðsdómslögmaður, fyrrverandi ráðherrarnir og þingmennirnir Álfheiður Ingadóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir og Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor.
Samkvæmt fréttum RÚV frá því í gær hækkuðu samanlögð laun stjórnar Landsvirkjunar úr 12,7 milljónum króna í 19 milljónir milli áranna 2016 og 2017 sem er tæplega 50 prósenta hækkun. Í athugasemdum Landsvirkjunar kemur fram að fyrirtækið segi launin ekki hafa hækkað eins mikið og haldið er fram, 13 prósent hækkunarinnar megi rekja til gengisþróunar þar sem laun séu greidd í krónum en fyrirtækið gerir upp í Bandaríkjadölum. Hækkun launa til stjórnarmanna sé um 5 prósent en samanlagðar greiðslur til þeirra hafi hækkað meira þar sem undirnefndum stjórnar sem þeir sitja í hafi fjölgað milli ára.
Í samtali við Kjarnann í gær sagðist Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ orðlaus yfir fréttum af þessum hækkunum og velti því upp hvort þær væri ekki framkvæmdar með samþykki ríkisstjórnar og þess ráðherra sem fer með málefni Landsvirkjunar.
Gylfi sagði þau hjá verkalýðshreyfingunni búin að vera í deilum við stjórnvöld um með hvaða hætti grípa eigi inn í ákvarðanir kjararáðs og á sama tíma sé verið að taka svona ákvarðanir hjá Landsvirkjun. „Maður er bara alveg í forundran að ráðherra hafi samþykkt þessa niðurstöðu,“ sagði Gylfi. Nú er ljóst að sami maðurinn á aðkomu að báðum þessum deilumálum sem hafa sett vinnumarkaðinn í heild sinni í uppnám - Jónas Þór Guðmundsson.