Sléttur helmingur landsmanna segjast fylgjandi banni á umskurði drengja samkvæmt nýrri könnun MMR sem lauk í dag. Fyrsta umræða um málið hélt einnig áfram í dag á Alþingi.
Í frétt MMR segir að landsmenn virðist hafa nokkuð sterkar skoðanir á málinu, sem sjáist helst á því að 68 prósent svarenda höfðu algerlega öndverða skoðun á því, það er sögust vera annað hvort mjög fylgjandi banninu (39 prósent) eða mjög andvíg umskurðarbanni (29 prósent).
Þá voru 11 prósent frekar fylgjandi banninu, 8 prósent frekar andvíg og 13 prósent svarenda kváðust hvorki fylgjandi því né andvíg.
Þá vekur athygli að öndverð afstaða til málsins virðist ganga þvert á flesta stjórnamálaflokka þannig að segja má að þjóðin sé pólitískt séð klofin í málinu.
Stuðningur við bann reyndist meiri með lækkandi aldri. Af yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 57 prósent vera fylgjandi banni samanborið við 34 prósent í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri). Að sama skapi voru 24 prósent yngsta aldurshópsins sem sögðust vera andvíg banni samanborið við 51 prósent elsta aldurshópsins.