Mjólkursamsalan hyggst taka rörin af 250 millilítra G-mjólkurfernum sínum. Það verður gert núna í mars og mega neytendur vænta þess að sjá röralausar fernur koma í verslanir upp úr næsta mánuði. Þetta kemur fram í svari MS við fyrirspurn Kjarnans.
Í frétt Kjarnans frá því í janúar 2016 kom fram að árið áður seldi MS rúmlega 1,6 milljón stykki af 250 millilítra G-mjólkurfernum með röri, bæði venjulega og létt G-mjólk.
Ólíkt flestum öðrum mjólkurafurðum sem seldar eru í litlum umbúðum, kemur G-mjólkin með röri á hliðinni eins og hún sé ætluð til drykkjar, eins og ávaxtasafi eða Kókómjólk. En langflestir nota mjólkina hins vegar út í kaffi.
Í svari MS á sínum tíma kom fram að pökkunarvél G-mjólkurinnar sé afar óhentug fyrir vöruna, en ný vél hlaupi á milljónum.
Nú segir MS að á þessum tveimur árum sem liðin eru síðan Kjarninn spurði síðast fyrir um málið hafi verið reynt að breyta umbúðunum á G-mjólkinni þegar settur var flipi á fernuna og rörið tekið. Það fékk dræmar undirtektir neytenda á þeim tíma, sem var meðal ástæðna þess að farið var aftur í núverandi umbúðir. Hins vegar framkvæmdi MS neytendakönnun í lok síðasta árs þar sem fram kom að meirihluti neytenda myndi ekki sakna rörsins. Í framhaldi var tekin ákvörðun um að taka rörin aftur af fernunum núna í mars.
Nú fjarlægjum við rörið af G-mjólkNú tökum við jákvætt skref í umhverfismálum og drögum úr plastnotkun með því að hætta að setja rör á G-mjólkina. Minna plast og enn auðveldara að skila til endurvinnslu. Á næstu vikum munum við svo kynna fleiri aðgerðir til að minnka plast í umbúðum okkar.
Posted by Mjólkursamsalan on Thursday, March 1, 2018
MS segist á síðasta ári hafa skipt úr fernum sínum þannig að kolefnisfótspor sé 66 prósent minna en áður þar sem efnin í þeim séu nú úr endurnýjanlegum uppruna.
MS framleiðir í heildina um 25 milljón fernur árlega sem innihalda ferskvörur sem verða nú með 66 prósentum minna kolefnisspor og var sú aðgerð hluti af framfylgd umhverfisstefnu fyrirtækisins. „Á þessu ári er meðal annars á áætlun okkar að klára að flytja síðustu af okkar vörum í umhverfisvænni fernur eftir því sem umbúðalager klárast og færa drykkarvörur úr plastumbúðum í fernur,“ segir í svari MS.