Fjárveitingar til vegamála hafa undanfarin ár verið langt undir viðhalds- og framkvæmdaþörfum. Á sama tíma hefur akstur á vegum aukist verulega, sem og kröfur samfélagsins um greiðar og öruggar samgöngur allt árið. Vaxandi ferðaþjónusta er stór þáttur í þessari þróun. Þannig jókst akstur um allt að 11 prósent á síðasta ári einu saman.
Þetta kom fram þegar Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti stöðu í vegamálum á ríkisstjórnarfundi í lok febrúar síðastliðins.
Segir í kynningunni að samhliða þessu hafi þörfin fyrir þjónustu, viðhald og framkvæmdir aukist. Framkvæmdir séu háðar verkefnabundnum fjárveitingum. Aðeins sú framkvæmd að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes sé metin á um 60 milljarða króna en heildar framlög til nýframkvæmda á þessu ári séu 11,7 milljarðar króna. „Auka þarf viðhald vega og verða fjárveitingar að nema um 10 til 11 milljörðum króna á ári en voru ríflega 8 milljarðar árið 2017. Vaxandi kröfur eru til þjónustu, sérstaklega vetrarþjónustu, sem og til vegmerkinga og þurfa framlög að nema minnst 5,5 milljörðum árlega en þau námu á síðasta ári 4,6 milljörðum.“
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að unnið sé að samgönguáætlun en þar komi fram tillögur að brýnum verkefnum sem verði síðan lögð fyrir Alþingi sem fjalli um hana í haust.
Mikil þörf fyrir framkvæmdir
Jafnframt segir í kynningunni að á undanförnum áratug hafi fjármunum verið forgangsraðað til viðhalds og vetrarþjónustu á kostnað framkvæmda. Nægi þar að nefna framkvæmdir á Vestfjörðum í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, jarðgangatengingu Seyðisfjarðar, endurbætur á Hringvegi og útrýmingu einbreiðra brúa á honum sem samtals gera um 100 milljarða króna. Þá sé afar brýnt að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes en kostnaður við þær framkvæmdir er metinn á um 60 milljarða króna.
Viðhaldsþörfin er brýn, samkvæmt ráðherra. Hann segir að undanfarin ár hafi fjárveiting til viðhalds vega verið umtalsvert lægri en þörf og því liggi vegir víða undir skemmdum. Samtals sé áætlað að þurfi um 11 milljarða króna á ári til að viðhalda vegakerfinu í ásættanlegu horfi og vinna upp viðvarandi skort en uppsöfnuð viðhaldsþörf nemi um 65 milljörðum króna.
Uppsafnaður vandi nálægt 50 milljörðum
Bundið slitlag er víða í slæmu ástandi, hjólför sums staðar svo djúp að hætta skapast í vatnsveðrum og holur eru hættulegar þar sem burðarlag er jafnvel farið að gefa sig, segir í kynningu ráðherra. Ennfremur að bundið slitlag sé á um 5.500 km vega og sé árleg viðhaldsþörf þess metin á um 2,8 milljarða króna. Uppsöfnuð þörf sé nú metin 11,3 milljarðar króna. Fjárheimild ársins 2017 hafi hins vegar verið 4 milljarðar króna.
„Þörfin fyrir styrkingar og endurbætur vega er mikil. Árleg þörf er metin 3 milljarðar króna á ári en uppsafnaður vandi er nú talinn vera nálægt 50 milljörðum króna. Fjárheimild var hins vegar 1,3 milljarðar króna á síðasta ári. Afleiðingar þessa eru dýrar því í stað viðhalds þarf jafnvel að endurbyggja veg frá grunni. Mikil umferðaraukning gerir einnig kröfur um breiðari vegi og er breikkun víða orðið brýn. Viðhaldi malarvega er einnig ábótavant. Lengd þeirra er um 7.400 km, þar af eru stofn- og tengivegir 2.800 km. Árleg viðhaldsþörf er metin 1,3 milljarðar króna en uppsöfnuð þörf til viðbótar er að lágmarki 2 milljarðar króna. Þá skortir víða á heflun og rykbindingu,“ segir í kynningunni.
Þjónustuþörf vegakerfisins fer vaxandi
Kemur fram að alls séu 1.225 brýr í vegakerfinu og 712 þeirra séu einbreiðar. Um 35 prósent brúa séu eldri en 50 ára og því sé komin mikil þörf á endurnýjun. Endurstofnverð brúnna sé 71,5 milljarðar króna og æskileg árleg viðhaldsþörf um 1,4 milljarðar króna á ári.
„Kostnaður við árlega þjónustu, að almennri þjónustu meðtalinni, er samtals metin á um 5 milljarða króna. Sífellt meiri kröfur eru um vetrarþjónustu, mest vegna ört vaxandi ferðaþjónustu allt árið. Undir þjónustu falla einnig vegamerkingar, yfirborðsmálun, stikun, skilti, lýsing, öryggismál svo sem uppsetning vegriða o.fl. Þá er upplýsingamiðlun um veður og færð vaxandi. Samdráttur í fjárveitingum til þjónustu hefur bitnað á almennri þjónustu en leitast er við að hlífa vetrarþjónustu.
Gera má ráð fyrir að vetrarþjónustan kosti nú að meðaltali rúma 3 milljarða króna árlega. Það sem af er þessu ári hefur daglegur kostnaður við vetrarþjónustu verið að meðaltali um 25 milljónir og á snjóþungum dögum um 35 milljónir króna“