Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, staðfestir í samtali við Kjarnann að hann og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri flokksins, hafi í aðdragandi kosninga fundað með ÖSE og viðrað áhyggjur sínar af slagsíðu í fjölmiðlum. Hann segir að sérstaklega hafi þeim fundist Ríkisútvarpið ekki verið að sinna hlutleysisskyldum sínum.
Í skýrslu ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hafi kvartað yfir hlutdrægni fjölmiðla á fundi með eftirlitsmönnum stofnunarinnar í aðdraganda Alþingiskosninga í lok október í fyrra.
Í skýrslunni segir að fulltrúarnir hafi kvartað undan hlutdrægni fjölmiðla sem fjölluðu um „lögbannið, þannig að það hafi eingöngu átt við um umfjöllun um forsætisráðherrann,“ sem á þessum tíma var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Lögbannið sem vitnað er til, var lögbannið sem Glitnir Holdco fékk sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum frá Glitni. Meðal annars var þar umfjöllun um viðskiptamálaefni Bjarna, þegar hann var bæði stór þátttakandi í íslensku viðskiptalífi og þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Funduðu tvisvar
„Ég geri ráð fyrir því að hér sé vísað til funda okkar Þórðar [Þórarinssonar] sem við áttum með ÖSE í aðdraganda kosninganna,“ segir Birgir. Hann segir að þeir hafi átt tvo fundi með ÖSE. Umfjöllunarefni fyrri fundarins hafi verið almennt um kosningar, enda séu slíkir fundir partur af eftirliti stofnunarinnar. Síðari fundurinn var nokkrum dögum fyrir kosningar, að sögn Birgis, og var meginumfjöllunarefnið fjölmiðlar og fjölmiðlaumfjöllun.
Hann segir að árum saman hafi fulltrúar flokkanna átt samtöl við ÖSE af þessu tagi og að ekkert óeðlilegt sé við það. „Ef ég man rétt þá var þetta með þeim hætti að fulltrúarnir voru að velta fyrir sér aðgangi stjórnmálaflokka að fjölmiðlum,“ segir Birgir. Hann hafi ekki litið á það sem vandamál, enda hafi allir flokkar ágætis möguleika á að koma málflutningi sínum á framfæri.
Slagsíða á RÚV
„Við ræddum það á fundinum sem okkur þykir slagsíða í fjölmiðlum; í fréttavali, framsetningu og þess hátta,“ segir Birgir. Hann bætir því við að þeir hafi einnig rætt fjölmiðla með almennum hætti. Þeir hafi bent á að eins og gengur væri það ekki óþekkt eða óeðlilegt að sumir væru þeim andvígir og aðrir hliðhollir. Ekkert væri undan því að kvarta.
Aftur á móti væri slagsíða á Ríkisútvarpinu. „Já, við nefndum það,“ segir Birgir. Sérstaklega hafi þeir verið með í huga fréttaflutning RÚV mánudagskvöldið fyrir kosningar. Einnig hafi þeim fundist sérkennilegur fréttaflutningur á laugardagskvöldið en að sögn Birgis tilgreindu þeir hann sérstaklega á fundinum.
Þeir hafi talað um að Ríkisútvarpið bæri ríkar hlutleysisskyldur sem stofnunin væri ekki að sinna. Birgir nefnir í því samhengi lögbannsmálið svokallaða og segist hann vera með fleiri mál í huga hvað þetta varðar. Hann nefnir þó ekki fleiri dæmi því til stuðnings.
Lögbannið þeim óviðkomandi
Birgir segir að þeir hafi nefnt það við ÖSE að þeim þætti annars vegar ósanngjarnt að málum væri stillt upp þannig að Sjálfstæðisflokkurinn bæri á einhvern hátt ábyrgð á lögbanninu. „Það var okkur algjörlega óviðkomandi,“ segir hann. Hins vegar finnst honum ósanngjörn sú umræða sem beinist að því að um væri að ræða lögbann á gögn um fjármál Bjarna Benediktssonar. Lögbannið hafi ekki beinst að því heldur að gögnunum í heild sinni.
Hann segir í samtali við Kjarnann að rétt sé haft eftir þeim Þórði í skýrslu ÖSE en bætir því þó við að þetta sé einungis brot af heildarmyndinni. Þessi sjónarmið hafi komið í samhengi við almenna umræðu um fjölmiðla.
Birgir segir að Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, hafi ekki verið greint frá þessu enda sé ákveðin verkaskipting innan flokksins.
Uppfært kl. 14:31:
Í svari Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, við fyrirspurn Kjarnans staðfestir hann að hann og Birgir hafi hitt fulltrúa ÖSE mánudaginn 23. október 2017. „Fundurinn var haldinn að frumkvæði ÖSE, sem hitti fulltrúa stjórnmálaflokka í tengslum við kosningaeftirlit vegna alþingiskosninga. Á fundinum fór fram almennt spjall þar sem snert var á ýmsum málum tengdum kosningunum. Meðal þess sem var til umræðu var fjölmiðlaumfjöllun,“ segir í svarinu.
Hann bætir því við að þeir hafi tekið það fram að þeir gerðu ekki athugasemdir um aðgang að fjölmiðlum, allir flokkar fengju tækifæri til kynna sig og koma skilaboðum á framfæri í fjölmiðlum. Hins vegar hefði að þeirra mati komið fyrir að slagsíða væri á fréttaumfjöllun sem væri alvarlegt er ríkisfjölmiðill ætti í hlut enda rekinn fyrir almannafé og hefði lögum samkvæmt ríkar hlutleysisskyldur.