Sólveig Anna Jónsdóttir er nýr formaður Eflingar. Þetta var kunngjört fyrir skömmu, en B-listi hennar hafði betur gegn A-lista í stjórnarkosningum í Eflingu, einu stærsta stéttarfélagi landsins með tæplega 30 þúsund félagsmenn.
Kosið var í dag og í gær.
Fyrir A-lista var Ingvar Vigur Halldórsson formannsefni, en fyrir B-lista Sólveig Anna, eins og áður segir. Hún naut meðal annars stuðnings Ragnars Þórs Ingólfssoanr, formanns VR, í embættið.
Sólveig Anna sigraði með miklum yfirburðum í kjörinu. A-listinn fékk 519 atkvæði en B-listi Sólveigar Önnu 2099 atkvæði. Niðurstaðan var kynnt skömmu fyrir hálf eitt.
Sólveig Anna hefur talað fyrir því að verkalýðshreyfingin taki róttækum breytingum, og að fólkið á gólfinu, sem lægstu launin hafi, fái meira vægi í baráttu hennar, auk þess sem breytt verði um stefnu þegar komið að lífeyris- og húsnæðismálum.
Sólveig Anna mun taka við af Sigurði Bessasyni, fráfarandi formanni, á aðalfundi félagsins þann 26. apríl nk.
Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.
Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði.
Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru 4.