Sólveig Anna Jónsdóttir, starfsmaður á leikskóla í Reykjavík, sigraði formannskosningu í Eflingu með yfirburðum í gær, og má með sanni segja að sigurinn marki nýtt upphafi í stéttarfélagsbaráttunni hér á landi.
Í Eflingu eru nú tæplega 30 þúsund félagsmenn en á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði. Sólveig Anna fékk 2.099 atkvæði af þeim heildarfjölda, eða um 80 prósent atkvæða, og meðan mótframbjóðandi hennar fyrir A-lista stjórnar og trúnaðarráðs, Ingvar Vigur Halldórsson, hlaut 519 atkvæði.
Yfirburðir eins og hjá VR
Sólveig Anna var opinberlega stutt af Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, sem sigraði einnig formannskosningarnar hjá VR, sem er með um 33 þúsund félagsmenn, með yfirburðum. Hann fékk rúmlega 62 prósent atkvæða þegar hann var kjörinn formaður til tveggja ára, í fyrra.
Róttæktar breytingar
Sólveig Anna mun taka við af Sigurði Bessasyni, sem hefur verið formaður Eflingar í tæplega 20 ár, en á þeim tíma hefur aldrei komið til mótframboðs og því verið sjálfkjörið í stjórn.
Sólveig Anna hefur boðað róttæka stefnubreytingu í verkalýðshreyfingunni, og vill að barist sé með meira afgerandi hætti fyrir hönd þeirra sem lægstu launin hafa.
Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrifum, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.