Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að núverandi ríkisstjórn hafi bundið rauða slaufu utan um eign sína í Arion banka og afhent vogunarsjóðum. Nokkrum klukkustundum síðar hafi verið upplýst að umfram eigið fé bankans væri 80 milljarðar króna og að undirliggjandi eignir hans væri verulega vanmetnar. Þar vísaði Sigmundur Davíð í umfjöllun Kjarnans um kynningu sem ráðgjafi Kaupþings, stærsta eiganda Arion banka, fluttu fyrir lífeyrissjóðum þegar þeir reyndu að fá þá til að kaupa hlut í bankanum.
„Gaman að sjá ykkur, velkomnir aftur til ársins 2009,“ segir Sigmundur Davíð að ríkisstjórnin hafi sagt við vogunarsjóðina sem eru nú stærstu eigendur bæði Kaupþings og Arion banka. Þetta kom fram í sérstökum umræðum um Arion banka sem fram fór á Alþingi nú síðdegis.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var til andsvars. Hún rifjaði upp í ræðu sinni að Sigmundur Davíð hefði verið forsætisráðherra þegar stöðugleikasamningar voru gerðir við kröfuhafa föllnu bankanna og að hún þekki Sigmund Davíð nægilega vel til að hann viti nákvæmlega hvernig staðan raunverulega sé. Ávöxtunin af bæði hluthafasamkomulagi, sem gert hafi verið við kröfuhafa Arion banka árið 2009 þegar bankinn var fjármagnaður, og af stöðugleikasamningunum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafði gert árið 2015, væri mjög góð.