Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir að margfaldur þjófnaður sé að eiga sér stað á grundvelli gallaðs stöðugleikasamnings milli ríkisins og Kaupþings, stærsta eiganda Arion banka. Þessi samningur hafi verið skrifaður af „manni sem núna situr hinum megin borðsins,“ en þar vísar Smári til Benedikts Gíslasonar, ráðgjafa Kaupþings við sölu Arion banka. Þetta kom fram í máli Smára í sérstakri umræðu um Arion banka, sem fór fram á Alþingi síðdegis.
Hann hefur lagt fram frumvarp sem á að takmarka útgreiðslur arðs frá fjármálafyrirtækjum við reiðufé í uppgjörsmynt fyrirtækisins. Frumvarpinu var dreift á þriðjudag.
Í umræðunni í dag sagði Smári að lengi hefði margan grunað að eitthvað misjafnt væri í gangi með Arion banka. Leynd hafi ríkt yfir stöðugleikasamningum, leynd hefði ríkt yfir hverjir væru raunverulegir eigendur Arion banka og skortur á gagnsæi ali á tortryggni og leyndarhyggju sem dragi úr getu samfélagsins til að uppræta innanmein.
Smári sagði að Píratar hefðu legið yfir málinu og sú vinna hefði skilað því að áhyggjur þeirra beinist að hættunni á eignaundanskotum, eða „tunnelovani“ á tékknesku. „Hugtakið var fundið upp þar á tímum kommúnismans, þegar slíkt var daglegt brauð. Um er að ræða flutning á eignum eða hagnaði út úr fyrirtækjum í þágu meirihlutaeigenda fyrirtækisins, á kostnað minnihlutaeigenda og skattyfirvalda.“
Þetta segir Smári að sé margfaldur þjófnaður frá almenningi á grundvelli gallaðs samnings. Hann hafi auk þess verið skrifaður af manni sem núna sitji hinum megin borðsins. Sá máður sem Smári vísar til er Benedikt Gíslason, sem var lykilmaður í framkvæmdarhópi um afnám hafta og kom að gerð stöðugleikasamninga við kröfuhafa föllnu bankanna. Hann starfar nú sem ráðgjafi Kaupþings. Kjarninn fjallaði ítarlega um Benedikt í síðasta mánuði.
Smári segir að til að tryggja að hagsmunir kröfuhafa svo sem lífeyrissjóða, minnihlutaeigenda og skattyfirvalda verði ekki fyrir borð bornir þurfi að skilyrða í lögum um að arður fari fram í reiðufé en ekki í eignunum félagsins. Því hafi hann lagt fram áðurnefnt frumvarp. Það sé algjört grundvallaratriði að hans mati að það nái fram að ganga.