Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, braut gegn tveimur siðareglum Háskóla Íslands með ummælum um Kjarninn sé fjármagnaður af kröfuhöfum föllnu íslensku bankanna og gangi þar með erinda þeirra, samkvæmt ákvörðun siðanefndarinnar sem dagsett er 9. mars 2018.
Ummælin setti Hannes fram í pistli á Pressunni sem birtist 14. febrúar 2015 og endurtók síðan efnislega þrívegis í stöðuuppfærslum á Facebook. Sú síðasta var birt í nóvember 2016. Sumar stöðuuppfærslurnar urðu uppspretta frétta í öðrum fréttamiðlum. Hannesi var ítrekað boðið að rökstyðja ummælin með gögnum eða draga þau annars til baka, en kaus í öllum tilvikum að gera það ekki.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og stundakennari við Háskóla Íslands, kærði því Hannes til siðanefndar í janúar 2017 fyrir að hafa ítrekað haldið fram ósönnum og órökstuddum fullyrðingum og neitað að draga þær til baka. Í kærunni sagði m.a. að aðrir hefðu tekið upp þessar ávirðingar og sett þær fram á opinberum vettvangi. „Þær hafa meira að segja verið ræddar á meðal þingmanna. Það er enginn vafi í huga undirritaðs þegar virtur prófessor við Háskóla Íslands, með 30 ára starfsferil að baki, setur þessar sömu upplognu ávirðingar fram opinberlega þá öðlast þær óverðskuldaðan trúverðugleika.“
Brotið var ekki talið alvarlegt þótt það snerti mikilvæg viðmið þar sem líta verði til þess að „fjölmiðillinn Kjarninn getur ekki talist í jafn viðkvæmri stöðu og ef um einstakling væri að ræða.“
Hægt er að lesa ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands í heild sinni hér.
Frelsi til að fara með rangt mál nýtur ekki verndar
Í ákvörðun siðanefndar segir að samfélagslegt umhverfi dagsins í dag sé ólíkt því sem áður var og að það sé í stöðugri þróun. „Skýrt dæmi þar um er notkun netmiðla og aðgengi upplýsinga á veraldarvefnum. Þessi þróun hefur opnað gáttir og leitt af sér ný siðferðisleg viðfangsefni. Dæmi þar um eru svokallaðar „falsfréttir“. Þó svo að slíkt sé ekkert nýnæmi í sögulegu samhengi er það af ýmsum ástæðum hættulegt lýðræðinu, m.a. þar sem það grefur undan einni grunnstoða þess, tjáningarfrelsinu, og skerðir aðgang almennings að „sönnum“ upplýsingum sem er nauðsynleg forsenda þess að geta myndað sé sjálfstæða skoðun. Ósannar fréttir teljast siðferðilega rangar þar sem þær eru andstæðar sannleikanum. Grundvöllur tjáningarfrelsisins er frelsið til að tjá skoðanir sínar og hugmyndir, en ekki frelsi til að segja hvað sem er um hvern sem er eða hvar sem er.“
Siðanefndin telur það vera úrskurðarnefni dómstóla að rannsaka og skera úr um hvort tiltekin staðhæfing sé röng og því eftir atvikum meiðandi fyrir einhvern. Þess vegna vísar hún frá þeim atriðum kærunnar sem velta á sannleiksgildi hinna kærðu ummæla.
Neitaði að leiðrétta, ítrekaði þess í stað
Í ákvörðun siðanefndar segir að það skipti einkum máli í niðurstöðu siðanefndar að kærandi fór ítrekað fram á leiðréttingu ummæla sem hann segir vera röng, en Hannes varð ekki við því og ítrekaði þau í hinum síðari tilvikum. „Í einu tilviki nýtir kærði ekki tækifæri til að rökstyðja ummæli sín þegar blaðamaður hefur samband við hann. Ein af frumskyldum háskólaborgara er að styðja við sannleikann og hamla gegn andstæðu hans, og er í því sambandi aftur bent á þá hættu sem tjáningarfrelsinu getur stafað af röngum fullyrðingum. Góður akademískur siður væri því að bregðast við kröfu um rökstuðning í tilviki eins og þessu en ella draga fullyrðingu til baka hafi hún ekki trygga stoð.“
Siðanefndin telur því að ágreiningsefnið geti varðað við siðareglur Háskóla Íslands að því leyti að háskólaborgurum ber að sýna hver öðrum virðingu í ræðu og riti. Þá felist ábyrgð háskólaborgara í því að endurtaka ekki staðhæfingar á opinberum vettvangi, sem mótmælt er og ítrekað er óskað eftir að þeir leiðrétti, án þess þá að færa rök fyrir þeirri afstöðu eða eftir atvikum vísa til heimilda, en ella að draga þær til baka. „Þykir það eiga sérstaklega við ef háskólaborgari aðgreinir sig ekki frá því hlutverki sínu með skýrum hætti eins og á við um pistil kærða á Pressunni. Niðurstaða siðanefndarinnar er að kærði hafi ekki virt sem skyldi ábyrgð sína samkvæmt reglu 2.4.1 um málefnaleg og gagnrýnin skoðanaskipti[...]og reglu 2.4.2. um að háskólaborgara skuli vera minntur stöðu sinnar þegar þeir taka þátt í opinberri umræðu, með því að hafna ítrekað áskorun kærða um leiðréttingu eða rökstuðning, en ein meginskylda háskólaborgara er að stuðla að því að fram komi það sem sannara reynist. Þykir kærði hafa brotið gegn siðareglum 2.4.1. og 2.4.2 með því að hafna því, þegar eftir því var leitað, að færa rök fyrir fullyrðingu sem hann setti fram opinberlega í pistli sínum á Pressunni og kærandi segir ósanna og meiðandi.“
Siðanefnd segir að við mat á alvarleika brotsins verði að hafa í huga að ummæli Hannesar hafi verið „sett fram sem viðbragð við fullyrðingu Kjarnans um hagsmunatengsl annars fjölmiðils og hins vegar má líta til þess að fjölmiðillinn Kjarninn getur ekki talist vera í jafn viðkvæmri stöðu og ef um einstakling væri að ræða. Af þessum ástæðum verður brotið ekki talið alvarlegt þótt það snerti mikilvæg viðmið.“