Frjálslyndar áherslur, á mælikvarða ríkisumsvifa, hafa heilt á litið orðið undir undanfarin ár. Þetta er mat Viðskiptaráðs sem kemur fram í frétt þess.
Ráðið fagnar umræðu síðustu daga, þar sem mikið hafi verið rætt um það hvaða flokkar raunverulega standi fyrir frjálslyndi, og auglýsir um leið eftir að fleiri sýni frjálslyndi í verki. „Verðmætin verða ekki til með öflun skattekna – verðmætin verða til í atvinnulífinu. Hvetur Viðskiptaráð þá flokka sem gefa sig út fyrir að standa fyrir frjálslyndi að standa betur vörð um raunverulega verðmætasköpun og berjast gegn auknum umsvifum hins opinbera,“ segir í fréttinni.
Jafnframt kemur fram að skattar hafi hækkað undanfarin tíu ár, sama hvort horft sé á álagningar einstaklinga eða fyrirtækja. „Fylgifiskur þessara skattahækkana er aukin umsvif hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, hér á landi. Heildarumsvif hins opinbera hafa aukist undanfarin ár en heildartekjur ríkissjóðs árið 2017 námu 43 prósent af vergri landsframleiðslu samanborið við 35 prósent 30 árum fyrr. Með öðrum orðum er leitnin sú að ríkið tekur til sín hærra hlutfall af verðmætasköpun landsmanna.
Heildarumsvif ríkis og sveitarfélaga hafa ekki einungis aukist heldur hafa tekjur á mann aukist gríðarlega undanfarin ár og áratugi. Tekur hið opinbera til sín nærri tvöfalt meiri tekjur af hverjum íbúa heldur en fyrir 30 árum síðan að teknu tilliti til verðbólgu,“ segir í fréttinni.
Eins og fjallað var um í leiðara á Kjarnanum í gær þá kemur fram í skýrslu hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sem birt var í ágúst 2017 að skattbyrði hefði aukist í öllum tekjuhópum hérlendis frá árinu 1998 til loka árs 2016. Aukningin væri langmest hjá tekjulægstu hópunum, munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.
Það liggur því fyrir að skattbyrði hefur aukist á umræddu tímabili. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat í fjármálaráðuneytinu allt þetta tímabil ef undanskilin eru árin 2009 til 2013.
Í fjárlögum ársins 2018 kemur fram að tekjuskattur sem einstaklingar greiða verði 14,1 milljörðum krónum hærri í ár en hann var í fyrra. Þá aukast skattgreiðslur sem fyrirtækin í landinu greiða í tekjuskatt um 7,4 milljarða króna. Bankar landsins greiða alls kyns viðbótarskatta sem fjármálafyrirtæki í öðrum löndum greiða ekki og fjármagnstekjuskattur var hækkaður úr 20 í 22 prósent um síðustu áramót.
Ýmiss konar háar álögur eru lagðar á bifreiðareigendur, húsnæðiskaupendur eru látnir greiða svokallað stimpilgjald, tóbaksnotendur greiða milljarða króna í skatta fyrir fíkn sína og þeir sem drekka áfengi munu skila 18,6 milljörðum krónum í áfengisgjöldum til ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þá er auðvitað ótalið að allir 16 til 70 ára þurfa að greiða útvarpsgjald til RÚV og sjávarútvegsfyrirtæki landsins greiða sérstök veiðigjöld í ríkissjóðs. Samtals verða tekjur ríkissjóðs 840 milljarðar króna í ár, samkvæmt fjárlögum. Það er 42 prósent fleiri krónur sem innheimtar verða í ríkiskassann en skiluðu sér þangað 2013.