Ekki er samstaða um nefndarálit með breytingartillögu lagt var fram af meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar síðastliðinn fimmtudag um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, þar sem lagt er til að kosningaaldur verði lækkaður niður í 16 ár.
Þeir sem standa að meirihlutaálitinu eru þingmenn frá Vinstri grænum, Samfylkingu, Viðreisn, Framsókn og Pírötum. Minnihlutinn í nefndinni samanstendur hins vegar af þingmönnum frá Sjálfstæðisflokki, einum frá Framsóknarflokki og einum frá Miðflokknum. Meirihlutaálitið er því ekki lagt fram eftir hefðbundnum víglínum. Tveir stjórnarþingmenn í nefndinni standa að álitinu ásamt þremur stjórnarandstöðuþingmönnum á meðan þrír stjórnarþingmenn og einn stjórnarandstæðingur eru ekki fylgjandi því.
Meirihlutinn samanstendur af Kolbeini Óttarssyni Proppé, Helgu Völu Helgadóttur, Jóni Þóri Ólafssyni, Jóni Steindóri Valdimarssyni og Þórunni Egilsdóttur. Þeir sem eru í minnihlutanum eru Brynjar Níelsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason og Þorsteinn Sæmundsson.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir í samtali við Kjarnann prinsippástæður vera að baki afstöðu hans. „Ég lít svo á að því fylgi mikil ábyrgð að geta kosið. Mér finnst að þeir sem geta kosið ættu einnig að geta boðið sig fram,“ segir hann.
Brynjar segist ekki vera mótfallinn 16 ára kosningaaldri en hann telur að samræma þurfi lögræðisaldurinn að sama skapi. „Ég vil bara að menn séu samkvæmir sjálfum sér.“
Býst við að málið verði afgreitt fyrir páska
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna og framsögumaður nefndarálitsins, segir að þetta mál sé hluti af alþjóðlegri umræðu sem lúti að því að efla lýðræðisþátttöku ungs fólks. Hann bendir á að Vinstri græn hafi áður lagt fram sambærilegt mál en Katrín Jakobsdóttir lagði fram frumvarp í fyrra er varðar kosningaaldur.
„Við teljum mjög mikilvægt að efla lýðræðisþátttöku. Á þessum aldri eru þau farin að greiða skatta af tekjum sínum og þá er eðlilegt að þau taki þátt í kosningum.“
Kolbeinn segist ekki búast við öðru en að hægt sé að afgreiða málið fyrir páska. Hann segir að mikilvægt sé að niðurstaða fáist í málið og ef ekki sé meirihluti fyrir því á þinginu þá þurfi það að koma fram.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur í sama streng og Brynjar. Hann segir að mörg gild rök séu fyrir því að lækka kosningaaldur en hann telur að þá þurfi að breyta sjálfræðisaldrinum á sama tíma. Jafnframt þyrfti kjörgengi að fylgja. Hann segir að breytingarnar ættu að ná yfir allar kosningar, ekki einungis sveitarstjórnarkosningar.
Ýmiss réttindi miðast við annan aldur en lögræðisaldur
Í nefndarálitinu segir að með frumvarpinu sé lagt til að aldursmörk kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningum verði við 16 ára aldur í stað 18 ára. Markmiðið með frumvarpinu sé að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur.
„Nefndin ræddi nokkuð um réttindi og skyldur barna og skyldur forsjárforeldra en samkvæmt lögræðislögum verða menn lögráða 18 ára en fram að því ráða foreldrar persónulegum högum barnsins, þ.e. fara með forsjá þess. Í því felst skylda til að taka ákvarðanir um uppeldi barns og réttur barnsins til að njóta forsjár foreldranna. Ýmis réttindi og skyldur barna miðast við annan aldur en lögræðisaldur auk þess sem skv. 5. gr. samningsins um réttindi barnsins skulu börn njóta sívaxandi réttinda miðað við aldur og þroska.
Í einstökum lögum er með beinum hætti mælt fyrir um réttarstöðu barns yngra en 18 ára, t.d. ráða börn sjálfsaflafé og gjafafé sínu samkvæmt lögræðislögum, réttur til að skrá sig í trúfélag er miðaður við 16 ár, réttur til að taka ákvörðun um fóstureyðingu er miðaður við 16 ár og í lögum um réttindi sjúklinga er rétturinn til að taka ákvörðun um heilbrigðisþjónustu miðaður við 16 ár svo að eitthvað sé nefnt.
Meiri hlutinn telur að það sé rétt skref að veita 16 ára börnum rétt til að kjósa og þurfa þau þá að fara að þeim fyrirmælum sem eiga við um kjósendur og kveðið er á um í kosningalögum. Meiri hlutinn tekur fram að í forsjá foreldranna felst ekki réttur foreldra til að taka ákvörðun fyrir börnin um hvað þau eigi að kjósa eða til að aðstoða börn sín á kjörstað í krafti forsjárskyldna,“ segir í nefndarálitinu.