Yfirvöld í Norður-Kóreu eru tilbúin til þess að leggja kjarnorkuáætlun sína á hilluna, í það minnst í bili. Með því yrði framleiðslu á kjarnorku hætt sem og tilraunum með langdrægar flaugar.
Frá þessu er greint í umfjöllun The Guardian í dag, en mun betri samskipti eru nú milli Norður- og Suður-Kóreu eftir Ólympíuleikana í Suður-Kóreu. Á þeim komust á betri samskiptaleiðir milli ríkjanna tveggja sem hafa leitt til þess, að Bandaríkin eru tilbúin til viðræðna við Norður-Kóreu um að draga úr spennunni á Kóreuskaga og tryggja frið.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, samþykkti fyrr í mánuðinum að hitta ráðamenn frá Norður-Kóreu, þar á meðal leiðtogann Kim Jong Un, en setti það skilyrði að fallið yrði frá kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.
Sendinefndir Suður-Kóreu og Bandaríkjanna eru nú sagðar vera staddar í Finnlandi, þar sem þess er beðið að fulltrúar yfirvalda í Norður-Kóreu komi til móts við þær og fundi um stöðu mála.
Kim Jong Un has "given his word" on denuclearization, South Korea says https://t.co/wIYRmTl3NM
— TIME (@TIME) March 19, 2018
Stefnt er að sameiginlegri ráðstefnu ríkjanna í maí, þar sem umfjöllunarefnið yrði kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu og friðarumleitanir.
Mikil spenna hefur verið á Kóreuskaga undanfarin tvö ár, en tilraunir Norður-Kóreu með langdrægar flaugar, og umfangsmiklar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, hafa leitt til eldfims ástands.
Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér fyrir efnahagsþvingunum gagnvart Norður-Kóreu, sem enn eru í gildi. Meðal annars hefur olíuinnflutningur til landsins verið bannaður að stórum hluta, sem hefur haft miklar og skyndilegar efnahagsafleiðingar í för með sér.
Íbúar á Kóreuskaga eru um 75 milljónir. Rúmlega 50 milljónir í Suður-Kóreu og 25 milljónir í Norður-Kóreu.