Afhjúpandi umfjöllun bresku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4, um vinnubrögð greiningar- og ráðgjafafyrirtækisins Cambridge Analytica hefur beint spjótunum enn meira að fyrirtækinu sem áhrifavalds á hinu pólitíska sviði víða um heim.
Í þættinum sem sýndur var í gær, kom fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að ýmsum brögðum væri beitt gegn pólitískum andstæðingum þeirra sem fyrirtækið væri að vinna fyrir, og kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þar á meðal væru mútugreiðslur. Þá kom fram í þættinum, að fyrirtækið beiti kerfisbundinni dreifingu á umfjöllunum og efni á samfélagsmiðlum, sem gæti náð til hópa sem gætu verið líklegir til að kjósa þann sem unnið væri fyrir. Í máli forsvarsmanna fyrirtækisins kom fram, að þeir væru ekki síst að vinna með aðferðafræði sem ýtti undir ótta hjá fólki.
Í máli Alexander Nix, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, kom fram að Cambridge Analytica væri að vinna við kosningabaráttur víða um heim þessi misserin, meðal annars í Asíu, Afríku og Evrópu. Kom fram í máli hans að félagið beitti ýmsum aðferðum, þar á meðal fölskum félögum, vændiskonum og undirverktökum til að fela sporin.
Cambridge Analytica komst í sviðsljósið um helgina þegar New York Times greindi frá því, að félagið hefði nýtt persónuupplýsingar um 50 milljónir notenda, sem aflað var í gegnum persónuleikapróf.
Gengi Facebook hríðféll í gær, um 7 prósent, en fjárfestar óttast að fyrirtækið muni lenda í vandræðum vegna þess hvernig farið hefur verið með upplýsingar notenda miðilsins. Facebook segist ætla að komast til botns í málinu, og að öllum steinum verði velt við í þeirri vinnu.