Fiskneysla í Noregi hefur minnkað á síðustu árum og munar fimmtán prósentum á milli ára. Stjórnvöld þar í landi hafa af þessu það miklar áhyggjur að herferð hefur verið hleypt af stokkunum þar sem markmiðið er að fá fólk til að borða þrjár máltíðir á viku.
Frá þessu er greint í frétt á vefsíðu Fiskifrétta.
Í fréttinni segir að sérstakt lógó hafi verið hannað og því komi fyrir þar sem von er á ungu fólki. Skilaboðin „þrisvar í viku“ séu skreytt hvers kyns skilaboðum um hversu heilsubætandi fiskátið er, auk þess sem uppskriftir að spennandi réttum og húsráð séu látin fylgja. Markhópurinn sé ungt fólk eða aldurshópurinn átján til 40 ára en þessi hópur er sagður síst líklegur til að borða fisk.
Fiskneysla mest á Íslandi
Embætti landlæknis stóð fyrir norrænni könnun á mataræði, hreyfingu og holdafari hér á landi í samstarfi við rannsakendur frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð og voru niðurstöðurnar birtar í janúar á síðasta ári. Önnur umferð rannsóknarinnar fór fram haustið 2014 en sú fyrri haustið 2011.
Í könnuninni kom fram að á Íslandi var meira borðað af sykurríkum matvörum á borð við súkkulaði, sælgæti, kökum og gosdrykkjum, en á hinum Norðurlöndunum og hafði neyslan ekki minnkað frá árinu 2011 líkt og gerst hafði á hinum Norðurlöndunum að Svíþjóð undanskilinni þar sem neyslan stóð í stað. Íslendingar borða minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin, samkvæmt könnuninni, og breyttist neyslan hér á landi ekki á tímabilinu. Sömuleiðis borðuðu Íslendingar minnst af heilkornabrauði og hafði neyslan minnkað milli ára. Fiskneysla var aftur á móti mest á Íslandi og óbreytt milli kannana.
Nýta samfélagsmiðla
Í frétt Fiskifrétta segir að stjórnvöld vonist til að hægt sé að vekja norska neytendur til vitundar um gæði og kosti fiskmetis á árinu sem framundan er. Í þeim anda hafi verið lagt í sérstaka rannsókn hvernig auðveldast sé að ná athygli unga fólksins í gegnum þá miðla sem þau nota helst, samfélagsmiðla og aðra. Slík nálgun sé helst talin líkleg til að ná árangri, að kynning á fiskmeti nái augum þeirra og eyrum á nefndum miðlum.