Eigendur tölvubúnaðar sem stolið var í janúar í gagnaveri á Suðurnesjum heita sex milljónum króna í fundarlaun til hvers sem getur veitt áreiðanlegar upplýsingar um hvar búnaðinn er að finna.
Í samtali við RÚV segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, að þessi aðferð eigi sé fá fordæmi í rannsóknum hér á landi. Ákvörðunin um að heita fundarlaunum sé tekin að ósk þeirra sem eiga tölvurnar, en hann telur þau geta skilað árangri í leitinni að búnaðinum. Lögreglan telur víst að búnaðurinn sé ekki farinn úr landi.
Ólafur segir mikla vinnu hafa verið lagða í málið og að góð mynd hafi sé komin á það þrátt fyrir að tölvurnar séu enn ófundnar.
Búnaðurinn sem um ræðir er sérhannaður til að framleiða rafmyntir á borð við Bitcoin og er metinn á 200 milljónir króna. Níu voru handteknir vegna málsins í upphafi, fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald og einn situr enn í varðhaldi.
Þeir sem búa yfir upplýsingum um málið eru hvattir til að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 832-0253. Lögregla heitir trúnaði um þann sem bendir á búnaðinn og ábendingar þurfa að berast fyrir 12. apríl 2018.