Fulltrúar námsmanna í stjórn LÍN lýsa yfir vonbrigðum með úthlutunarreglur LÍN 2018 til 2019 en þeir telja að í þeim birtist, viljaleysi mennta- og menningarmálaráðherra sem og meirihluta stjórnar LÍN til að koma til móts við námsmenn svo um munar, þótt vissulega eitthvað hafi færst í rétta átt. Námsmenn hafa undanfarin ár setið á hakanum og ekki hlotið þær kjarabætur sem aðrir hópar hafa fengið. Fulltrúar námsmanna í stjórn LÍN vonuðust eftir að staða námsmanna yrði nú loks bætt en þeir virðast þurfa bíða enn um sinn eftir almennilegum kjarabótum.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fulltrúum í stjórn LÍN sem send var út í dag.
Að mati fulltrúanna er ekki nóg að gert fyrir námsmenn í nýsamþykktum úthlutunarreglunum fyrir skólaárið 2018 til 2019. Segja þau að almennt frítekjumark LÍN breytist ekkert milli ára og að ekki verði gerð breyting á frítekjumarki þeirra sem koma úr námshléi.
„Almenna frítekjumarkið er enn 930.000 kr. fyrir skatt og ef árstekjur námsmanna eru hærri skerðist lánið sem nemur 45 prósent af umframtekjum. Frítekjumarkið var síðast hækkað árið 2014, en laun í landinu hafa hækkað um 32 prósent frá því ári skv. launavísitölu Hagstofunnar. Þá er frítekjumark öryrkja rúm 1.300.000 kr og höfðu fulltrúar námsmannahreyfinganna í stjórn LÍN vonast eftir að frítekjumark námsmanna yrði sambærilegt en meirihluti stjórnar hafnaði því.
Grunnframfærsla námsmanna, sem byggð er á grunnviðmiði neysluviðmiða velferðarrráðuneytisins, hækkar um aðeins 4 prósent og er því enn of lág eða einungis 96 prósent en ekki 100 prósent af þessum grunnviðmiðum. Þá tekur húsnæðiskostnaður í úthlutunarreglunum mið af leiguverði á Stúdentagörðum, þó svo almennt leiguverð sé mun hærra og einungis 9% stúdenta hafi aðgang að stúdentagörðum. Einstaklingur í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði mun því einungis fá 184.000 kr. á mánuði. Stúdentar eiga ekki að þurfa að sætta sig við að fá framfærslu sem er undir framfærsluþörf.
Stjórn LÍN samþykkti að hækka framfærslu í 100 prósent og einnig þá eðlilegu kröfu námsmanna að hækka ferðalán þeirra sem stunda nám erlendis, úr því að fá lánað fyrir einni ferð á námstíma, í eina ferð á ári. Mennta- og menningarmálaráðherra hafnaði því að staðfesta þær tillögur stjórnar fyrir námsárið 2018-2019. Samþykkti stjórn LÍN því nýjar úthlutunarreglur að tillögum ráðherra, þar sem m.a. ferðalán voru ekki hækkuð og framfærslan einungis hækkuð í 96%. Þá neitaði meirihluti stjórnar að hækka lán til skólagjalda þrátt fyrir að það liggi fyrir að þau dugi ekki í mörgum tilvikum.
Því ber þó að fagna að stjórn LÍN hafi samþykkt að endurskoða framfærslugrunn fyrir námsmenn erlendis. Treyst er á að haft verði samráð við fulltrúa nemenda þegar kemur að þeirri vinnu og að hún verði ekki einskorðuð við skoðun á því að lána í íslenskum krónum. Þá vilja fulltrúar námsmanna einnig gera verulega athugasemd við vinnubrögð menntamálaráðherra í tengslum við úthlutunarreglurnar. Stjórn LÍN fékk innan við klukkutíma til þess að taka afstöðu til þeirra breytinga sem ráðherra vildi gera á tillögum stjórnar LÍN á úthlutunarreglunum. Það er í besta falli óeðlilegt að stjórn LÍN eigi að taka upplýsta ákvörðun og samþykkja þær reglur sem ákvarða kjör námsmanna, á sama tíma og þeim eru kynntar breytingartillögur frá ráðuneytinu, líkt og raunin var degi fyrir páskafrí,“ segir í yfirlýsingunni.