Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að leggja allt að 25 prósent verndartolla á 128 bandarískar innflutningsvörur. Aðgerðin er svar þeirra við ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að hækka tolla á erlenda stál- og álframleiðslu í byrjun mars.
Á meðal þeirra vara sem tollar verða hækkaðir á eru svínakjöt og vín. Talið er að virði þeirra vara sem nýju verndartollarnir muni hafa áhrif á séu um þrír milljarðar Bandaríkjadalir, eða um 300 milljarðar króna. Þeir taka gildi í dag, mánudag. Frá þessu er greint á vef BBC.
Í frétt miðilsins er haft eftir stjórnvöldum í Peking að aðgerðin sé til þess fallin að vernda hagsmuni og viðskiptajöfnuð Kínverja, sem hafi tekið á sig högg vegna þeirra verndartolla sem Trump lagði á í mars.
Trump að fylgja boðaðri einangrunarstefnu
Donald Trump margítrekaði í kosningabaráttu sinni árið 2016 að Bandaríkin þyrftu að endurskoða utanríkisverslun sína og þátttöku sína í alþjóðasamstarfi og fjölþjóðlegum fríverslunarsamningum.
Um 25 prósent tollur var lagður á innflutt stál og tíu prósent á ál. Þessar aðgerðir voru risavaxnar á flesta mælikvarða, og leiddu af sér mikil mótmæli frá öðrum markaðssvæðum, eins og í Evrópu og Asíu.
Aðgerðirnar þá beindust ekki síst að Kínverjum, en málmiðnaðurinn hefur vaxið gríðarlega hratt þar á undanförnum árum, og hefur sala þaðan verið sífellt umfangsmeiri, meðal annars til Bandaríkjanna. Kínverjar sögðu strax að þeir hefðu ekki hafa áhuga á tollastríði við Bandaríkin, en létu þó með fylgja að ef fari svo að hagsmunir Kína yrðu skaðaðir, þá verði slíkum aðgerðum svarað. Það gerðist í dag.
Fleiri tollar í bígerð
Trump hefur sagt opinberlega að tollastríð séu af hinu góða og að það sé auðvelt fyrir Bandaríkin að vinna slík stríð. Stjórnvöld þar í landi hafa þegar kunngert ráðagerðir um að leggja tolla á enn fleiri vörur sem innfluttar eru frá Kína og samkvæmt frétt BBC er árlegt virði þeirra vara tugir milljarðar Bandaríkjadala.
Vænta má þess að kínversk stjórnvöld haldi áfram að svara öllum slíkum aðgerðum í sömu mynt. Tollastríð er því sannarlega skollið á.