Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp sem kveður á um breytingar á kvikmyndalögum. Í greinargerð þess segir m.a.: „Meginefni þessa frumvarps er að kveða skýrt á um að umsækjendur frá öðrum ríkjum EES geti sótt um styrk til Kvikmyndasjóðs. Jafnframt eru sett ítarlegri skilyrði en nú eru um að styrkur verði einungis veittur vegna íslenskra kvikmynda, kvikmynda sem eru á íslenskri tungu eða hafa íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun.“
Frumvarpið byggir á athugasemdum frá hagsmunaaðilum og kvikmyndaráði auk þess sem færa þurfti ákvæði kvikmyndalaga til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að markmið þess sé að færa framkvæmd úthlutana Kvikmyndasjóðs til samræmis við nýjar leiðbeinandi reglur um ríkisaðstoð til kvikmynda og annarra hljóð og myndmiðlunarverka sem eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti á vormánuðum 2014.
Hafa einskorðast við íslenskar kvikmyndir
Þar segir en fremur að ástæða þess að ákvæði kvikmyndalaga hafi ekki fyrr en nú verið færð til samræmis við ríkisaðstoðarreglur EES sé sú að íslensk stjórnvöld hafa talið aðstoðarkerfi Kvikmyndasjóðs vera „yfirstandandi aðstoð“ sem er aðstoð sem var hafin fyrir gildistöku EES-samningsins í viðkomandi EFTA-ríki og er enn veitt. Kvikmyndasjóðurinn hafi verið stofnaður árið 1978, fyrir gildistöku EES-samningsins, og starfsemi hans verið í óbreyttri mynd í áratugi. Slíkri aðstoð er ríkjum heimilt að viðhalda en hún er engu síður háð eftirliti ESA um samræmi við EES-samninginn.
Í greinargerðinni segir síðan: „Hingað til hafa úthlutanir Kvikmyndasjóðs einskorðast við íslenskar kvikmyndir sem samkvæmt kvikmyndalögum eru kvikmyndir sem eru unnar eða kostaðar af íslenskum aðilum eða eru samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Slíkar úthlutanir þar sem ekki er gert ráð fyrir styrkgreiðslum til framleiðenda sem hafa staðfestu í öðrum EES-ríkjum eða fela í sér aðrar beinar eða óbeinar kröfur um þjóðerni eru ekki í samræmi við leiðbeiningarreglur ESA. Þannig kemur fram í 46. mgr. leiðbeiningarreglnanna að tryggja þurfi m.a. að meginregla 4. gr. EES-samningsins sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis sé virt við framkvæmd ákvæða um aðstoð til kvikmyndagerðar. Þrátt fyrir þetta er ríkjunum heimilt, sbr. 24. mgr. leiðbeiningarreglnanna, að styðja sérstaklega við tungumál sem talað er á litlu málsvæði eins og á við um íslensku. Endurspegla þarf með ótvíræðum hætti í lögum rétt einstaklinga og lögaðila á grundvelli EES-samningsins og talið er eðlilegt að gera það með því að lögfesta ákvæði um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis.“
Engin fjárhagsleg áhrif fyrirséð
Í frumvarpinu er líka litið til tillagna kvikmyndaráðs um breytingar á kvikmyndalögum og samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016–2019. Þar er lagt til að tekin verði upp í kvikmyndalög ákvæði um sýningarstyrki en 31. desember 2016 féllu úr gildi lög um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi. Þá hafa ný lög um ríkisfjármál haft í för með sér breytingar á skilgreiningu á hlutverki forstöðumanna og einnig er tillaga um nýtt ákvæði um hámarksskipunartíma forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til samræmis við t.d. skipun þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands. „Að lokum er brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis um að setja ítarlegri reglur um störf kvikmyndaráðgjafa og að gæta verði að sjónarmiðum um gagnsæi og jafnræði um stjórnsýslu þessara mála.“
Fjárhagsleg eða efnahagsleg áhrif eru ekki fyrirséð ef frumvarpið verður að lögum. Fjárveitingar til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasjóðs eru veittar í fjárlögum og því hafa þær breytingar á stöðu umsækjenda frá öðrum ríkjum innan EES-svæðisins, sem frumvarpið felur í sér, engin áhrif á útgjöld ríkisins í málaflokknum. „Erlendir ríkisborgarar frá ríkjum EES-svæðisins hafa sótt um styrki úr Kvikmyndasjóði en slík tilvik eru svo fá að þau hafa ekki haft áhrif á möguleika íslenskra ríkisborgara til að fá styrki að nokkru nemi auk þess sem réttindi ríkisborgara EES-ríkja eru gagnkvæm. Af þeim sökum er hér talið að ekki verði nein mælanleg áhrif á styrkveitingar úr Kvikmyndasjóði þótt ákvæði þessa frumvarps verði að lögum.“