Samkeppniseftirlitið segir lagaumhverfi leigubifreiðamarkaðarins samkeppnishamlandi. Það hefur ítrekað mælst til þess að lagaumgjörð rekstrar leigubifreiða verði endurskoðuð og hinar opinberu hömlur afnumdar. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins við þingsályktunartillögu Viðreisnar og Pírata um frelsi á leigubifreiðamarkaði.
Í tillögunni er mælst til þess að Alþingi feli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna íslenskan leigubifreiðamarkað fyrir aukinni samkeppni.
Eftirlitið segir að takmörkun á fjölda leigubifreiða hafi augljós neikvæð áhrif á samkeppni. Fjöldi leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sé þannig svipaður og þegar Samkeppniseftirlitið skrifaði álit til samgönguráðherra fyrir 11 árum síðan, þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og sprengingu í komu ferðamanna til landsins. Mælist Samkeppniseftirlitið til þess að þetta ákvæði laganna verði endurskoðað.
Einnig ákvæði um bann við að veita fleiri en eitt atvinnuleyfi til hvers aðila. Það komi í veg fyrir að hægt sé að stofna leigubifreiðastöðvar með því að kaupa ökutæki, afla starfsleyfis og ráða ökumenn í vinnu. Áskilnaður um að akstur leigubifreiðar sé aðalatvinna þeirra sem stunda aksturinn ætti líka að vera afnuminn.
„Á takmörkunarsvæði sem nær til höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja eru, skv. upplýsingum frá Samgöngustofu, í gildi 547 virk leyfi til leigubifreiðaaksturs og leyfi í tímabundinni innlögn 48 talsins. Starfa nú sex leigubílastöðvar á svæðinu. Takmörkunarsvæðið er kallað svo af því að aðgangur nýrra bifreiðastjóra er takmarkaður og að öðru jöfnu óheimill nema þegar einhver þeirra bifreiðastjóra sem fyrir voru hafi hætt störfum, og þá aðeins að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Á svæðinu geta að hámarki tiltekinn fjöldi atvinnubílstjórar starfað á hverjum tíma. Núna eru virk útistandandi leyfi 547 talsins og hefur þeim frekar fækkað en fjölgað að undanförnu,“ segir í umsögninni.
Samkeppniseftirlitið segir enn fremur að það hafi á liðnum árum birt stjórnvöldum umsagnir í tilefni af vinnu á þeirra vegum sem hafi haft að markmiði að endurskoða regluverð um leigubifreiðaakstur. Að auki hafi það beint formlegum álitum til ráðherra, síðast í desember síðastliðnum vegna vinnu starfshóps um heildaryfirferð regluverks um leigubifreiðaakstur. Það hafi lagt áherslu á að kraftar samkeppninnar fái notið sín á þessum markaði eins og öðrum, en með virkri samkeppni sé almennt stuðlað að lægra verði til neytenda og betri þjónustu við þá.
Bæði Neyendasamtökin og Félag atvinnurekenda hafa lagt inn umsagnir um þingsályktunartillöguna og taka í sama streng.