Greiningar- og ráðgjafafyrirtækið Cambridge Analytica komst yfir meira af upplýsingum um notendur Facebook, með óeðlilegum hætti, heldur en áður var talið.
Í fyrstu var frá því greint að fyrirtækið hefði komist yfir upplýsingar um 50 milljónir notenda, en nú er talið að tæplega 90 milljónir hafi verið undir, að því er breska ríkisútvarpið BBC greindi frá í kvöld.
Á meðal þessara tæplega 90 milljóna er um 1,1 milljónir í Bretlandi, en langsamlega flestir voru í Bandaríkjunum.
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, mun koma fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum 11. apríl, og mun hann þar svara spurningum sem lúta að persónufrelsi notenda og hvernig á því stóð að fyrirtækið komst yfir meira af gögnum en leyfilegt er að deila, samkvæmt skilmálum Facebook.
Cambridge Analytica hefur unnið fyrir ýmis fyrirtæki og samtök, þar á meðal framboð Donalds Trumps og Brexit hreyfinguna í Bretlandi. Fyrirtækið er nú til rannsóknar, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, en það hefur varist ásökunum og hafnað því að hafa gert nokkuð rangt.
Zuckerberg hefur hins vegar viðurkennt, að Facebok hafi farið illa að ráði sínu og deilt of miklu magni gagna, miðað við það sem skilmálar fyrirtækisins segja til um. Hann segir hins vegar, að nú standi yfir rannsókn á þessum málum, bæði innan Facebook og hjá yfirvöldum, og hann vilji bíða með nánari skýringar.
Verðmiðinn á Facebook hefur fallið um 20 prósent frá því málið komst í hámæli, fyrir rúmlega þremur vikum, en markaðsvirði fyrirtækisins er nú 450 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 45 þúsund milljörðum króna.