Kostnaður stjórnarráðsins við rekstur ráðherrabíla og bílstjóra í fyrra var alls 16.363.529 krónur. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar.
Í svarinu segir að tilgangur með starfsemi bifreiðanna sé að veita ráðherrum aukið öryggi og þjónustu er þeir sinna embættisskyldum sínum. Ráðherrabifreiðar skulu vera útbúnar öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og ekið af sérstökum bifreiðastjóra sem jafnframt sinnir hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra.
Ekki er framkvæmd hlunnindamat vegna notkunar ráðherra á ráðherrabílum. Samkvæmt eldri reglugerð frá árinu 1991 um bifreiðamál ríkisins kom fram að ráðherra gæti notað ráðherrabifreið til takmarkaðra einkanota. Þá taldist akstur til og frá heimili sem einkanot. Í gildandi reglugerð er ekki fjallað sérstaklega um rétt til takmarkaðra einkanota og jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherrum sé ekið til og frá heimili, m.a. vegna öryggissjónarmiða. Fyrir vikið er hlunnindamat ekki reiknað.
Svandís Svavarsdóttir núverandi heilbrigðisráðherra spurði á síðasta kjörtímabili út í bifreiðakaup ráðherra. Í svari við fyrirspurn hennar kom fram að ráðuneytin væru ýmist búin að skipta yfir í tvinn- eða tengitvinnbíla eða hygðust gera það við næstu kaup á ráðherrabílum.
Í svari við fyrirspurn Björns Levís kemur fram að undanfarið hafi verið unnið að því að endurskipuleggja umsýslu og rekstur bifreiða Stjórnarráðsins og ráðningarsamband ráðherrabílstjóra. Innleiðing nýs fyrirkomulags standi yfir. „Það miðar að hagkvæmari rekstri allra ráðherrabifreiða, skýrari umgjörð um notkun þeirra og efldu hlutverki bifreiðastjóra. Eftirleiðis verður umsjón með bifreiðum, rekstur þeirra og endurnýjun hjá miðlægri þjónustueiningu Stjórnarráðsins. Endurnýjun bifreiða verður í samræmi við vistvæna innkaupastefnu ráðherrabifreiða sem ríkisstjórnin samþykkti í febrúar sl. Þá miðar hið nýja fyrirkomulag að því að efla starfsumhverfi bifreiðastjóra og gera þeim betur kleift að gegna mikilvægu öryggishlutverki gagnvart ráðherra.“