Hlutfall ferðamanna á móti íbúum er langhæst á Íslandi í samanburði við vinsælustu ferðamannaþjóðir Evrópu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna 2018.
Í skýrslunni segir að hlutfallið gefi vísbendingu um álag á innviði viðkomandi þjóðar. Innviðir fámennra þjóða séu eðli málsins samkvæmt viðkvæmari fyrir mikilli og hraðri fólksfjölgun en innviðir þeirra þjóða sem fjölmennari eru.
„Þannig hefur t.d. reynst Íslendingum erfitt að mæta vinnuaflsþörf í ferðaþjónustu og byggingariðnaði nema með aðfluttu vinnuafli samhliða hraðri fjölgun ferðamanna undanfarið. Eftirspurn eftir atvinnu- og íbúðarhúsnæði hefur einnig aukist samhliða uppgangi ferðaþjónustunnar. Álag á flug- og vegasamgöngur hefur aukist og skapast hefur aukin þörf á gistiveitinga- og afþreyingatengdri þjónustu.“
Þegar Ísland er borið saman við vinsælustu ferðamannaþjóðir í Evrópu sést að Ísland er ennþá lítill fiskur í stórri tjörn. Hingað koma um 3 prósent af þeim fjölda ferðamanna sem ferðast til Frakklands sem er vinsælasti áfangastaður í Evrópu fyrir ferðamenn.