Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretland hafi ekki tekið þátt í árásunum á Sýrland um helgina af því að Donald Trump sagði þeim að gera það. Hún segir það vera Bretum í hag að notkun efnavopna sé bönnuð og að notkun þeirra verði ekki normalíseruð. May kom fyrir breska þingið í dag.
Á laugardaginn hófu Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar loftárásir á Sýrland. Tilgangurinn með árásinni var að svara fyrir efnavopnanotkun Sýrlandsstjórnar viku áður. Ekki er talið að mannfall hafi orðið í árás Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands en skotmörkin voru efnavopnabúr Sýrlandsstjórnar.
Hnitmiðaðar árásir
May segir nægar sannanir vera fyrir því að efnavopn hafi verið notuð og þess vegna hafi ekki verið beðið eftir að rannsóknarmenn Efnavopnastofnunarinnar kæmust inn á svæðið. Hún segir að árásin hafi verið hnitmiðuð og hafi haft skýrt markmið. Árásin skilaði þeim niðurstöðum sem ætlast var til en árásirnar grönduðu rannsóknarstofum og herstöðvum Sýrlandsstjórnar. Hún segir að aðgerðir Sýrlandsstjórnar í gegnum árin hafi gefið til kynna að notkun efnavopna myndi halda áfram og því væri nauðsynlegt að binda enda á hana.
Þjóðþing þessara ríkja fengu ekki tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun þjóðhöfðingjanna um hvort svara ætti árásunum eða ekki. Nú telur leiðtogi Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, að ekki hafi verið farið að lögum. Hann gagnrýnir að ríkisstjórnir geti tekið þátt í hernaðaraðgerðum án þess að hafa nokkuð samráð við þjóðþingin og vill setja lög þess efnis í Bretlandi. Corbyn gaf það einnig í skyn um helgina að Bretland hefði aðeins tekið þátt í árásunum því Bandaríkjaforseti hefði sagt þeim að gera það. BBC greindi frá því að árásirnar hefðu átt sér stað yfir helgi því þingið starfi ekki um helgar.
May segir að hraði aðgerðanna hafi ollið því að hún hafði þingið ekki með í ráðum. Hún segir að skjót viðbrögð hafi verið nauðsynleg til að tryggja öryggi þeirra sem tóku þátt í aðgerðunum. Hún tekur ábyrgð á ákvörðun sinni og segir hana byggða á lagalegum grunni.
Gagnrýna Macron
Emanuel Macron forseti Frakklands hefur fengið álíka gagnrýni frá frönskum þingmönnum. Helsti andstæðingur hans í stjórnmálum Marine Le Pen, leiðtogi franska þjóðernisflokksins National Front, segir að ekki hafi fengist staðfest að efnavopn hafi verið notuð. Rannsóknarfólk Efnavopnastofnunarinnar fær ekki aðgang að Douma en yfirvöld í Sýrlandi og bandamenn þeirra, Rússar, meinar stofnuninni aðgang.
Macron segir að hann hafi sannfært Donald Trump um að afturkalla ekki herlið sitt frá Sýrlandi og segir að loftárásir ríkjanna í Sýrlandi um helgina ekki vera stríðsyfirlýsingu gegn stjórn Bashars al-Assads.
Fyrr í mánuðinum gaf Trump það út að Bandaríkin myndu afturkalla herlið sitt fljótlega frá Sýrlandi. Talskona Hvíta hússins, Sarah Sanders, svaraði ummælum Macrons og sagði að Bandaríkin stæðu enn við þá ákvörðun sína að herlið þeirra myndi fara út úr Sýrlandi eins fljótt og auðið væri. Bandaríkjamenn eiga um tvö þúsund hermenn á svæðinu sem styður við uppreisnarherinn þar í landi. Bandaríkin hafa enn það markmið að „eyða algjörlega“ Íslamska ríkinu svokallaða.
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússland segir að samskiptin milli Rússlands og Vesturlandanna séu verri en á tímum kalda stríðsins. Hann segir einnig að engar sannanir séu fyrir að efnavopn hafi verið notuð í Sýrlandi og að ríkisstjórnir ríkjanna sem stóðu fyrir árásunum hafi aðeins vitnað í fjölmiðla og samfélagsmiðla.