Kaup Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra útgerðarfélagsins Brims, á 34,1 prósent eignarhlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í HB Granda, gætu dregið dilk á eftir sér.
Heildarupphæð viðskiptanna nemur tæplega 21,7 milljörðum króna, miðað við tilboðið, sem Kristján Loftsson taldi of gott til að hafna því.
Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti gæti hafa myndast yfirtökuskylda á félaginu, í ljósi þess að yfirráð Guðmundar og Brims, væru komin yfir þau mörk sem miðað er við í lögum.
Í þeim er miðað við 30 prósent, en eins og áður segir taka viðskiptin til stærri hluta en það.
Markaðsvirði HB Granda í dag nemur um 54,7 milljörðum króna, en ekki var viðskiptadagur í dag vegna sumardagsins fyrsta.
Kristján og Halldór eru báðir stjórnarmenn í HB Granda. Þeir áttu eignarhlutinn, sem tilkynnt var um kaupin á, í gegnum félögin Vogun hf. og Fiskiveiðahlutafélagið Venus hf. Þeir hafa verið stærstu einstöku eigendur félagsins, en Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti hluthafinn með 13,6 prósent hlut.