Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra og aðaleiganda Brims, ber að gera yfirtökutilboð í alla hluti í HB Granda, vegna viðskipta hans með 34,1 prósent hlut í félaginu.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær, virkjast yfirtökuskylda við kaupa á 30 prósent hlut í skráðu félagi, samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
Verðið sem greitt er fyrir hlutina, sem áður voru í eigu Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar, er um 16 prósent yfir núverandi markaðsvirði, en við lokun markaða á miðvikudag, sem er var síðasti viðskiptadagur, var verðmiðinn á HB Granda 54,7 milljarðar króna. Sé mið tekið af verðmiðanum í viðskiptum Guðmundar, þá er hann um 65 milljarðar króna.
Ljóst er að því að umfang þessara viðskipta getur hlaupið á enn fleiri milljörðum en 21,7 sem hann þarf að greiða fyrir hluti Kristjáns og Halldórs Teitssonar.
Guðmundur vonast sjálfur til þess, að núverandi hluthafar verði áfram eigendur HB Granda, en yfirtökuskyldan, og tilboð í alla aðra hluti, er því lagaleg skylda.
Eigið fé HB Granda nam í lok árs í fyrra um 257 milljónum evra, eða sem nemur um 35 milljörðum króna.
Efnahagur Brims, þar sem Guðmundur er aðaleigandi, en eignir þess nema yfir 50 milljörðum króna og eigið féð yfir 20 milljörðum. Þá á Guðmundur einnig um þriðjungshlut í Vinnslustöðinni í Vestamannaeyjum.
Meðal stærstu eigenda HB Granda í dag eru íslenskir lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna með tæplega 13,7% hlut og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með ríflega 11,7% hlut.
Forvitnilegt verður að sjá hvernig hluthafar félagsins taka í yfirtökutilboðið, því Kristján Loftsson mat það svo að tilboð Guðmundar væri gott, því hefði hann ákveðið að taka tilboðinu. Lífeyrissjóðirnir hafa hagnast vel á viðskiptum sínum með hlutabréf í HB Granda og geta fengið umtalsverðan söluhagnað ef þeir taka tilboði í hlutinn.
Hins vegar er HB Grandi traust fyrirtæki, sem hefur sterkan efnahag og hefur auk þess langa og trausta rekstrarsögu. Að því leytinu til eru skammtímasveiflur á verðmiða félagsins ekki endilega aðalatriðið þegar kemur að sýn eigenda félagsins, heldur frekar að félagið hefur greitt eigendur mikinn arð árlega og er burðarstólpi í íslenskum sjávarútvegi.