Samfylkingin ætlar að leggja áherslu á uppbyggingu Borgarlínu, að setja Miklubraut í stokk, að tryggja börnum sem eru 12 til 18 mánaða gömul leikskólapláss og tryggja ungu fólki og fyrstu kaupendum 500 íbúðir. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík og oddvita flokksins, þegar hann kynnti kosningaáherslur hans í Gamla bíó í dag.
Í ræðu sinni sagði Dagur að næsta verkefni í almenningssamgöngum væri að klára samninga við ríkið og hefja framkvæmdir við gerð Borgarlínu strax á næsta ári. Fjárhagslegur styrkur borgarinnar gæti nýst til að hraða verkefninu. Sömu sögu væri að segja af þeirri framkvæmd að setja Miklubraut í stokk. Reykjavíkurborg gæti tryggt fjármagn til stokksins þótt að framlög ríkisins til verkefnisins kæmu inn á lengri tíma.
Í tilkynningu frá Samfylkingunni vegna kosningaáherslnanna segir að hún vilji að Reykjavíkurborg „bjóðist til að fjármagna sérstakt félag ríkis, borgar og annarra sveitarfélaga sem myndi ráðast í þessi verkefni strax, þótt greiðslur ríkis og annarra kæmu til á lengri tíma. Þannig myndu jákvæð áhrif umferð, umhverfi og uppbyggingu koma fram strax á næstu árum.“
Skattgreiðendur í Reykjavík gætu ekki einir borið ábyrgð á hinum verst settu
Dagur hvatti önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til að taka þátt í uppbyggingu fyrir þá verst settu í samfélaginu, en mikill munur hefur verið á t.d. fjölda félagslegra íbúða í Reykjavík annars vegar og t.d. Garðabæ og Seltjarnarness hins vegar. Hann sagði að skattgreiðendur í Reykjavík gætu ekki einir og sér borið ábyrgð á þeim hópi sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu og landsins alls eigi að bera sameiginlega.
Næsta verkefni á sviði húsnæðismála yrði að tryggja ungu fólki og fyrstu kaupendum 500 íbúðir í Gufunesi, Úlfarsárdal, Bryggjuhverfi, Skerjafirði, á Veðurstofuhæð og á lóð Stýrimannaskólans.
12 til 18 mánaða börn eiga að komast á leikskóla
Í máli Dags kom fram að sú mannekla sem hafi verið á leikskólum borginnar væri á góðri leið með að leysast þótt að það yrði áfram viðvarandi verkefni að fjölga starfsfólki.
Næsta verkefni sem hægt yrði að ráðast í á næsta kjörtímabili væri að klára uppbyggingu leikskólana og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. í tilkynningunni segir að byggja þurfi sex nýja leikskóla og fjölga leikskólaplássum um 800 á kjörtímabilinu, opna sjö nýjar ungbarnadeildir og sex nýjar leikskóladeildir þar sem eftirspurnin er mest strax í haust. Þess vegna yrði hægt á næsta kjörtímabili að bjóða 12 til 18 mánaða börnum pláss á leikskólum borgarinnar.
Mælast með 30 prósent fylgi
Kjarninn birti fyrstu kosningaspá sína fyrir komandi kosningar í morgun. Samkvæmt spánni myndi Samfylkingin fá 30 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag og átta borgarfulltrúa. Hún yrði samkvæmt því stærsti flokkurinn í borginni eftir kosningarnar. Það er aðeins minna fylgi en flokkurinn fékk 2014 þegar 31,9 prósent kjósenda kusu hann. Þá fékk hann fimm borgarfulltrúa en sú breyting verður gerð eftir komandi kosningar að borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23. Atkvæði á bak við hvern borgarfulltrúa sem nær kjöri verða því mun færri en þau voru fyrir fjórum árum og nú þarf tólf borgarfulltrúa til að mynda meirihluta, en áður þurfti átta til þess.
Þeir þrír flokkar sem mynda núverandi meirihluta í höfuðborginni og mælast með mann inni, Samfylking, Vinstri græn og Píratar, eru með meirihluta atkvæða á bak við sig. Þeir gætu því haldið samstarfi sínu áfram ef vilji væri til ef kosið yrði í dag.
Þrír nýir flokkar myndu ná manni inn í borgarstjórn og staða Sjálfstæðisflokksins er mjög svipuð og hún var eftir kosningarnar 2014. Allt útlit er fyrir að minnsta kosti sjö flokkar fái borgarfulltrúa kjörin í kosningunum.