Kosningspá fyrir borgarstjórn

Meirihlutinn í Reykjavík myndi halda

Meirihlutinn í Reykjavík gæti haldið samstarfi sínu áfram án þess að taka aðra inn í samstarfið. Hann myndi fá 13 af 23 borgarfulltrúum ef kosið yrði í dag. Nýir flokkar myndu fá samtals þrjá borgarfulltrúa en núverandi minnihluti einungis sjö. Þetta er niðurstaða fyrstu kosningaspárinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn í Reykjavík, þeir þrír flokkar sem mynda núverandi meirihluta í höfuðborginni eru með meirihluta atkvæða á bak við sig, þrír nýir flokkar myndu ná manni inn í borgarstjórn og staða Sjálfstæðisflokksins er mjög svipuð og hún var eftir kosningarnar 2014. Allt útlit er fyrir að minnsta kosti sjö flokkar fái borgarfulltrúa kjörin í kosningunum.

Þetta er niðurstaða fyrstu kosningaspár Baldurs Héðinssonar stærðfræðings og Kjarnans fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem fram fara 26. maí næstkomandi.

Samkvæmt spánni myndi Samfylkingin fá 30 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag og átta borgarfulltrúa. Það er aðeins minna fylgi en flokkurinn fékk 2014 þegar 31,9 prósent kjósenda kusu hann. Þá fékk hann fimm borgarfulltrúa en sú breyting verður gerð eftir komandi kosningar að borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23. Atkvæði á bak við hvern borgarfulltrúa sem nær kjöri verða því mun færri en þau voru fyrir fjórum árum og nú þarf tólf borgarfulltrúa til að mynda meirihluta, en áður þurfti átta til þess.

Niðurstöður kosningaspárinnar 9. apríl 2018
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.

Með Samfylkingunni í ríkjandi meirihluta eru Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar. Björt framtíð býður ekki fram lista í Reykjavík í kosningunum í lok maí en flokkurinn fékk 15,6 prósent atkvæða í kosningunum 2014. Vinstri græn myndu fá 11,4 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, sem er umtalsvert betri niðurstaða en flokkurinn fékk í kosningunum 2014, þegar 8,3 prósent atkvæða. Þetta myndi líklegast skila flokknum þremur borgarfulltrúum, þótt þriðji maðurinn sé ansi tæpur inn.

Píratar mælast sömuleiðis með meira fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum. Nú mælist stuðningur við flokkinn 9,7 prósent en hann fékk 5,9 prósent. Yrði þetta niðurstaðan myndu Píratar fá tvo borgarfulltrúa kjörna. Þeir þrír flokkar sem eru nú í meirihluta í Reykjavík og verða í framboði í lok maí myndu því fá samtals 13 borgarfulltrúa ef kosið yrði í dag, samkvæmt niðurstöðu kosningaspárinnar.

Lítil bæting hjá Sjálfstæðisflokknum

Hinn turninn í borgarmálunum er Sjálfstæðisflokkurinn. Honum gekk ekki vel í kosningunum 2014 þegar hann fékk 25,7 prósent atkvæða, sem er langversta niðurstaða flokksins í borgarstjórnarkosningum í sögunni. Fyrir komandi kosningar er mikil endurnýjun á lista flokksins og nýr oddviti er Eyþór Arnalds. Fylgi flokksins mælist aðeins meira en það var fyrir fjórum árum, eða 27,3 prósent. Yrði það niðurstaða kosninga myndi þó vera um að ræða næst verstu niðurstöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá upphafi. Miðað við kosningaspánna myndi flokkurinn fá sjö borgarfulltrúa kjörna.

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.
B C D F M P S V Aðrir

Hinn flokkurinn sem er með Sjálfstæðisflokknum í minnihluta í borgarstjórn er Framsóknarflokkurinn. Fylgi hans hefur hrunið frá því sem það var í kosningunum 2014, þegar 10,7 prósent kjósenda í höfuðborginni kusu flokkinn. Nú segjast einungis 3,3 prósent kjósenda ætla að kjósa Framsókn, sem myndi ekki duga til að ná manni inn. Þó er vert að taka fram að Framsókn vantar ansi lítið upp á til að ná oddvitanum Ingvari Mar Jónssyni í borgarstjórn.

Þrjú ný framboð myndu ná inn

Allar líkur eru á því að á annan tug framboða verði á kjörseðlinum nú. Síðast voru framboðin átta talsins. Á meðal nýrra framboða sem hafa lýst yfir að þau ætli sér að bjóða fram eru Viðreisn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn, Höfuðborgarlistinn, Íslenska þjóðfylkingin og sérstakt kvennaframboð. Þá hefur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, boðað að hún ætli sér að leiða sérframboð í kosningunum.

Af þessum sýnir kosningaspáin að þrjú framboð nái inn manni í Borgarstjórn. Viðreisn trekkir mest nýju framboðanna og mælist með 7,6 prósent fylgi. Það myndi þó einungis duga til að ná inn einum borgarfulltrúa, oddvitanum Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur. Lítið þarf þó til að Pawel Bartoszek, annar maður á lista flokksins, nái inn.

Miðflokkurinn mælist með 5,1 prósent fylgi sem myndi duga Vigdísi Hauksdóttur, oddvita flokksins, til að komast inn í borgarstjórn. Þau 3,5 prósent atkvæða sem myndu fara til Flokks fólksins ef kosið yrði í dag myndu gera það að verkum að Kolbrún Baldursdóttir, oddviti flokksins, næði inn með naumindum. Sæti hennar, ásamt þriðja manni Vinstri grænna, eru þau sæti sem eru í mestri hættu samkvæmt spánni.

Vigdís Hauksdóttir verður borgarfulltrúi samkvæmt spánni.
Mynd: FB-síða Vigdísar Hauksdóttur

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:

  • Þjóðarpúls Gallup 8. mars (vægi 30,5 prósent)
  • Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 21 - 27. mars. (vægi 37,6 prósent)
  • Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 9. apríl (vægi 31,9 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar