Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað öllum kröfum Eimskipafélags Íslands (Eimskip) í máli þess gegn Fjármálaeftirlitinu (FME). Þetta kemur fram í frétt á vef eftirlitsins.
Eftirlitið lagði í byrjun apríl 2017 50 milljóna stjórnvaldssekt á Eimskipafélag Íslands fyrir að birta ekki innherjaupplýsingar úr rekstri félagsins nægilega snemma. Í fréttatilkynningu á vef FME segir að öllum kröfum Eimskip hafi verið hafnað, bæði hvað varðar ógildingu ákvörðunarinnar og einnig varðandi lækkun á sektarfjárhæð. Ekki liggi fyrir hvort að málinu verði áfrýjað en dómurinn hefur enn ekki verið birtur á vef dómstóla.
Drógu línu í sandinn varðandi meðferð innherjaupplýsinga
Hinn 8. mars 2017 tók stjórn FME ákvörðun gegn Eimskipafélagi Ísland hf. (Eimskip) vegna brots gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. „Brotið fólst í því að Eimskip birti ekki innherjaupplýsingar, sem lágu fyrir þann 20. maí 2016, um mikið bætta rekstrarafkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016, eins fljótt og auðið var og á jafnræðisgrundvelli eða frestaði birtingu innherjaupplýsinganna,“ sagði í tilkynningu FME.
Í byrjun apríl var svo greint frá því að 50 milljón króna stjórnvaldssekt yrði lögð á Eimskip fyrir að birta ekki innherjaupplýsingar úr rekstri félagsins nægilega snemma.
Eimskip tók ekki niðurstöðunni vel
Óhætt er að segja að Eimskip hafi ekki tekið þessari niðurstöðu vel. Félagið sagði lagatúlkun FME setja í uppnám hvernig staðið skuli að birtingu upplýsinga í aðdraganda á uppgjöri á markaði.
Í tilkynningu frá Eimskip eftir að sektin var lögð á fyrirtækið sagði að ef þessi niðurstaða FME ætti að vera leiðandi fyrir skráðan markað, þá væri skráðum félögum í raun gert ómögulegt með að vinna að undirbúningi á fjárhagsuppgjörum.
FME rökstuddi niðurstöðu sína með því að horfa sérstaklega til þess hvernig málsatvik voru í umrætt sinn.
Í lýsingu á málsatvikum sagði að vinna við gerð árshlutareiknings Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung 2016, tímabilið 1. janúar til 31. mars (Q1), hafi hafist um miðjan maí og „lágu fyrstu drög fyrir þann 20. maí 2016 kl. 11:39,“ eins og orðrétt sagði í málsatvikalýsingunni.
Þá sagði að drög hafi sýnt „mikið bætta rekstrarafkomu Q1 2016, m.a. nam EBITDA 9,6 milljónum evra og jókst um 66,5% í samanburði við Q1 2015“, og hagnaður hafi numið 1,8 milljónum evra og jókst um 21,1 prósent í samanburði við Q1 2015.